Skipulags- og samgöngumál til umræðu á háskólaþingi HÍ
Þróunaráætlun fyrir svæði Háskóla Íslands og bílastæðamál á svæðinu verða til umfjöllunar á 32. háskólaþingi Háskóla Íslands sem fram fer í Hátíðasal skólans miðvikudaginn 17. janúar kl. 13-15.45. Þingið verður sent út í beinu streymi.
Seturétt á háskólaþingi eiga yfir hundrað manns en þingið er samráðsvettvangur háskólasamfélagsins þar sem fram fer umræða um þróun og eflingu Háskóla Íslands. Þingið sækja helstu stjórnendur skólans, kjörnir fulltrúar fræðasviða, fulltrúar helstu stofnana háskólans og samstarfsstofnana hans, kennarafélaga og stúdenta auk fulltrúa starfsmanna stjórnsýslu og úr háskólaráði.
Að þessu sinni eru þrjú mál á dagskrá háskólaþings. Í upphafi reifar rektor þau mál sem eru efst á baugi innan Háskóla Íslands en að því loknu verður fjallað um drög að þróunaráætlun fyrir svæði Háskóla Íslands. Til máls taka Hrund Ólöf Andradóttir, prófessor og formaður skipulagsnefndar Háskóla Íslands, og Orri Steinarsson, arkitekt, borgarskipulagsfræðingur og eigandi JVST í Rotterdam, sem unnið hefur með skipulagsnefnd og Reykjavíkurborg að þróunaáætluninni. Að erindi hans loknu verður boðið upp á umræður.
Eftir kaffihlé verður stjórnun bílastæða á lóðum Háskóla Íslands til umræðu en Kristinn Jóhannesson, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs skólans, mun þar kynna áform Háskólans í þeim efnum. Þegar Kristinn hefur lokið framsögu sinni fara fram umræður um málið.