Svör um jarðvísindi og hagfræði mest lesin á Vísindavefnum árið 2023
Svör um jarðvísindi og hagfræði raða sér í fimm efstu sæti þeirra svara sem birtust árið 2023 og mest voru lesin á Vísindavef HÍ.
Að meðaltali heimsækja um sjö þúsund manns Vísindavefinn daglega og fletta þar tæplega níu þúsund síðum. Breiddin í lestri er veruleg og þannig getur fjöldi þeirra svara sem lesin eru á einum degi hæglega nálgast sex þúsund. Eins og gefur að skilja vekja sum svör oft meiri athygli en önnur.
Á árinu 2023 höfðu lesendur Vísindavefsins greinilega einna mestan áhuga á svörum um jarðvísindi og hagfræði. Svörin í jarðvísindaflokknum birtust öll seinni hluta ársins, þegar draga tók til tíðinda á ný á Reykjanesskaga. Áhugi á jarðvísindum hefur verið einstaklega mikill frá fyrstu tíð og frá upphafi hafa birst um 800 svör í þeim flokki á Vísindavefnum. Það sama má segja um hagfræðiflokkinn, svör í þeim flokki vekja iðulega mikla athygli.
Fimm mest lesnu nýju svör ársins 2023
- Hver eru lágmarkslaun á Íslandi? eftir Þórólf Matthíasson
- Hvaða íbúðahverfi á höfuðborgarsvæðinu liggja á flekaskilum? eftir Jón Gunnar Þorsteinsson
- Hversu langt geta kvikugangar brotið sér leið? Gæti kvikugangur t.d. leitað undir Reykjanesbæ? eftir Pál Einarsson
- Í hverju felst munurinn á verðtryggðum og óverðtryggðum vöxtum á lánum? eftir Gylfa Magnússon
- Ef gos hefst nærri Þorbirni gæti hraun þá runnið inn í Grindavík? eftir Magnús Tuma Guðmundsson og Jón Gunnar Þorsteinsson
Svör um gaslýsingu, lúsmý, rímspillisár og samfélagsmiðla einnig vinsæl
Önnur svör sem vöktu athygli lesenda, bæði þau sem birtust ný á árinu 2023 og eldri svör, eru af ýmsum toga. Þar koma meðal annars við sögu stjarnvísindi, málvísindi, sjúkraþjálfun, lífvísindi, fjölmiðlafræði og læknisfræði, svo nokkuð sé nefnt. Athyglisvert er að í fyrsta sinn frá heimsfaraldri COVID-19 kemst aðeins eitt svar sem tengist faraldrinum ofarlega á lista yfir þau svör sem mikið eru lesin. Hér fyrir neðan fylgir listinn, en svörunum er raðað á handahófskenndan hátt.
Önnur mikið lesin svör, bæði gömul og ný
- Hversu mikið D-vítamín ættu Íslendingar að taka? eftir Ingibjörgu Gunnarsdóttur og Birnu Þórisdóttur
- Hver er stærsti jarðskjálfti sem mælst hefur á Íslandi og hversu stór var hann? eftir Pál Einarsson
- Hvað er átt við með orðinu gaslýsing? eftir Guðrúnu Kvaran
- Hvernig fer ég að því að finna halastjörnuna ZTF E3 á næturhimninum? eftir Sævar Helga Bragason
- Hversu fljótt geta þeir sem fá COVID-19 farið að smita aðra og hvenær eru þeir mest smitandi? eftir Jón Magnús Jóhannesson og Jón Gunnar Þorsteinsson
- Hvað er nárakviðslit og er hægt að lækna það? eftir Mörtu Rós Berndsen, Tómas Guðbjartsson og Fritz H. Berndsen
- Af hverju geta Ísraelar og Palestínumenn ekki lifað saman í sátt og samlyndi? eftir Magnús Þorkel Bernharðsson
- Hvað getið þið sagt mér um eldvirkni á Reykjanesskaga? eftir Kristján Sæmundsson og Magnús Á. Sigurgeirsson
- Getur lúpína ekki sáð sér yfir girðingu, samanber myndina sem ég tók? eftir Borgþór Magnússon
- Hvað eru samfélagsmiðlar? eftir Jón Gunnar Ólafsson
- Hvað er málþroskaröskun? eftir Jóhönnu Thelmu Einarsdóttur
- Hvað getið þið sagt mér um lúsmý? eftir Erling Ólafsson og Matthías Alfreðsson
- Hvar er hægt að finna flóðatöflu á Netinu? eftir Emilíu Dagnýju Sveinbjörnsdóttur
- Hvenær er næsta rímspillisár? eftir Jón Gunnar Þorsteinsson
- Gerir bandvefslosun sem nú er vinsæl á líkamsræktarstöðvum eitthvað gagn? eftir Harald B. Sigurðsson
- Hvenær á að nota „mig“ og hvenær á að nota „mér“ með sagnorðum? eftir Eirík Rögnvaldsson
Um 2,5 milljónir heimsókna á Vísindvefinn árið 2023
Árlegar heimsóknir á árinu 2023 voru um 2,5 milljónir og flettingar um 3,2 milljónir. Flestir heimsóttu Vísindavefinn í þriðju viku nóvembermánaðar, eða rétt eftir að fjögurra kílómetra langur kvikugangur myndaðist og teygði sig undir Grindavík. Þá viku voru gestir Vísindavefsins um 62 þúsund og flettu þeir um 80 þúsund síðum Vísindavefsins.