Nýsköpun, tækni og vísindi úr HÍ á UTmessu
Tæknin við vöktun jarðhræringa á Reykjanesi, þróun hraunrennslislíkana, vinna við mælingar á hopun jökla, netöryggi, grafísk umbreyting á þróun jökla í fortíð fram á vora daga, forritun vélmenna, tölvumælingar á stökkkrafti og ýmsar smiðjur tengdar tækni og forritun. Þetta allt og margt fleira verður að finna á sýningarsvæði Háskóla Íslands á UTmessu sem fram fer í Hörpu dagana 2. og 3. febrúar. Þá er Jón Atli Benediksson, rektor Háskóla Íslands, annar af aðalfyrirlesurum ráðstefnunnar auk þess sem Hafsteinn Einarsson frá HÍ mun fjalla um það sem er á allra vörum þessa dagana, gervigreindina. Hin sívinsæla hönnunarkeppni verkfræðinema HÍ fer einnig fram á UTmessu.
UTmessan hefur í á annan áratug verið helsti vettvangur fyrir kynningar á nýjungum í tölvugeiranum og upplýsingatækni almennt. Tilgangur messunnar er ekki síst til að sýna almenningi hversu stór og umfangsmikil þessi grein er orðin hér á landi og víðar. Á UTmessuna mæta öll helstu tölvu- og tæknifyrirtæki landsins auk háskóla og stofnana.
Messan er tvískipt. Föstudaginn 2. febrúar er ráðstefnudagur fyrir fagólk í upplýsingatæknigeiranum en laugardaginn 3. febrúar er sérstakur tæknidagur þar sem almenningi gefst færi á að kynna sér hvernig upplýsingatæknin kemur við sögu innan fjölmargra fyrirtækja og stofnana. Aðgangur að tæknideginum er ókeypis og opinn öllum.
Rektor HÍ annar aðalfyrirlesara
Á ráðstefnudeginum flytur Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, annað af aðalerindunum en hann er í hópi áhrifamestu vísindamanna heims á sviði fjarkönnunar. Fjarkönnun er eitt brýnasta vísindasvið nútímans og snýst um að taka m.a. háþróaðar myndir af yfirborði jarðar með gervihnöttum, flugvélum eða flygildum og vinna úr þeim ýmsar upplýsingar um breytingar á yfirborði jarðar. Þessi tækni er t.d. notuð við greiningu á alls kyns þáttum er snúa að náttúruvá í tengslum við eldgos og aðdraganda þeirra. Þessi tækni hefur þannig verið mikið nýtt við að ráða í umbrotin á Reykjanesi.
Erindi Jóns Atla ber heitið Machine Learning for Big Data in Remote Sensing Powered by Supercomputing.
Auk Jóns Atla mun Hafsteinn Einarsson, lektor í tölvunarfræði við HÍ og einn helsti sérfræðingur landsins í gervigreind, fjalla um galla slíkrar tækni og þá áhættu sem fylgir því að treysta of mikið á gervigreind við viðkvæmar ákvarðanir. Þá mun Matthias Book, prófessor og námsbrautarstjóri í tölvunarfræði við HÍ stýra málstofu um stafræna þróun.
Á ráðstefnudeginum flytur Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, annað af aðalerindunum en hann er í hópi áhrifamestu vísindamanna heims á sviði fjarkönnunar. Fjarkönnun er eitt brýnasta vísindasvið nútímans og snýst um að taka m.a. háþróaðar myndir af yfirborði jarðar með gervihnöttum, flugvélum eða flygildum og vinna úr þeim ýmsar upplýsingar um breytingar á yfirborði jarðar.
Jarðvísindin í HIÍ í brennidepli á tæknidegi
Það verður svo nóg um að vera á svæði Háskóla Íslands í Silfurbergi á laugardeginum. Auk hinnar árlegu Hönnunarkeppni HÍ, sem skipulögð er af nemendum í iðnaðarverkfræði og vélaverkfræði við Háskóla Íslands, býður skólinn upp á fjölbreyttar stöðvar þar sem gestir kynnast því hvernig tölvutæknin kemur við sögu í hinum ólíku fræði- og faggreinum. Það eru til dæmis ekki öll sem átta sig á því að jarðvísindafólk styðst við alls kyns upplýsingatæknilausnir við rannsóknir og mælingar auk þess að þróa sínar eigin lausnir á því sviði til að styðja við samfélagið. Þannig geta gestir t.d. skoðað á laugardag hvernig tölvugrafík varpar ljósi á hopun jökla, hvernig jöklarannsóknir fara fram og spár eru gerðar á því sviði með tölvulíkönum. Gestir geta einnig séð þá tækni sem vísindamenn HÍ nýta til að fylgjast með jarðskorpuhreyfingum við Grindavík og Svartsengi.
Þá verður hægt að prófa nýjustu tækni í íþróttavísindum og mæla stökkkraft sinn. Á svæðinu verður líka hægt að skoða rafknúinn kappasktursbíl sem nemendur HÍ í liðinu Team Spark hafa þróað, upplifa móður jörð í sýndarveruleika, keppa við gervigreindarforrit um auðkenningu hluta á gervihnattamyndum og kynna sér vélmennaforritun, netöryggi og verkefni og reynslu kvenna og kvára í tölvunarfræði við HÍ.
Enn fremur kynna Íslandsmeistarar First LEGO League þrautir með LEGO kubbum og forrituð vélmenni og Vísindasmiðja HÍ og Mixið verða með tilraunir og smiðjur fyrir alla aldurshópa.
Þá mun Eyjólfur Brynjar Eyjólfsson, forstöðumaður á Menntasviði HÍ, flytja örfyrirlestur á tæknideginum í samstarfi við Framtíðarsetur Íslands um áhugaverð verkefni á sviði upplýsingatækni til valdeflingar ungu fólki.
Nánari upplýsingar um UTmessu má finna á vef ráðstefnunnar en tæknihlutinn á laugardag er öllum opinn með húsrúm leyfir eins og áður sagði og er aðgangur alveg ókeypis.