Skip to main content
29. janúar 2024

Tækifæri til launaðrar starfsþjálfunar hjá alþjóðastofnun

Tækifæri til launaðrar starfsþjálfunar hjá alþjóðastofnun - á vefsíðu Háskóla Íslands

Nemendum Háskóla Íslands sem lokið hafa grunn- eða meistaranámi á síðustu tveimur árum eða eru skráðir í doktorsnám býðst að sækja um launaða starfsþjálfun hjá Evrópsku einkaleyfastofunnni (EPO) og Hugverkastofu Evrópusambandsins (EUIPO) í gegnum samstarf skólans við þessar stofnanir. Auglýst er eftir umsóknum þessa dagana og frestur til að sækja um starfsþjálfun vegna tímabilsins 2024-2025 er til og með 16. febrúar.

Starfsþjálfunin er í 12 mánuði frá miðjum september ár hvert og hægt er að sækja um hana í tölvupósti til inno@hi.is

Hjá EPO og EUIPO öðlast nemendur einstaka starfsreynslu hjá alþjóðastofnunum og alhliða fræðslu á hugverkaréttindum. Auk þess fylgja starfsþjálfuninni ýmiss konar fríðindi eins og tungumálanám. Þeir nemendur sem hafa áhuga á að sækja um starfsþjálfunina sækja fyrst um til Háskóla Íslands sem metur hvort viðkomandi uppfylli grunnskilyrði og útnefnir svo tiltekinn fjölda nemenda. 

Nemendur sem stunda nám á þeim sviðum sem sterkasta tengingu hafa við hugverkaréttindi eru sérstaklega hvattir til að sækja um (verkfræði, raunvísindi, lyfjafræði, líftækni, viðskiptafræði, lögfræði, hagfræði, fjármál og alþjóðasamskipti). 

Þau sem geta sótt um þurfa að hafa lokið grunn- eða meistaranámi innan tveggja ára frá dagsetningu umsóknar eða vera skráð í doktorsnám. Jafnframt þurfa umsækjendur að hafa góða þekkingu á einu af þremur vinnutungumálum EPO (ensku, þýsku eða frönsku). Sé sótt um hjá EUIPO gildir það sama nema að þar eru vinnutungumálin fimm (enska, þýska, franska, ítalska eða spænska). Enn fremur þurfa umsækjendur að hafa  lokið þeim rafrænu námskeiðum sem farið er fram á. 

Nánari upplýsingar um starfsþjálfunina má finna á vef HÍ.
 

""