Skip to main content
8. febrúar 2024

Háskólaráð HÍ samþykkir að hefja viðræður um stofnun háskólasamstæðu

Háskólaráð HÍ samþykkir að hefja viðræður um stofnun háskólasamstæðu - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskólaráð Háskóla Íslands samþykkti á fundi sínum á dögunum að fela rektor að hefja formlegar viðræður við Háskólann á Hólum um mögulega stofnun háskólasamstæðu. Um leið verður kannað hvort fleiri háskólar eða rannsóknastofnanir geti orðið hluti af slíkri samstæðu.

Stýrihópur á vegum háskólanna tveggja, sem falið var að meta mögulega útfærslu á samstarfi eða sameiningu, skilaði nýverið skýrslu sinni þar sem lagt var til við háskólaráð beggja skóla að hefja undirbúning stofnunar nýrrar háskólasamstæðu. Að mati stýrihópsins væri ljóst að samstæða af þeim toga sem lýst er í skýrslunni yrði umbylting í skipulagi háskólastarfs á Íslandi og mikill ávinningur fyrir íslenskt háskólasamfélag.

Háskólaráð Háskólans á Hólum hafði þegar samþykkt að hefja viðræður um myndun slíkrar samstæðu og á fundi háskólaráðs HÍ þann 1. febrúar var skýrslan og mögulegar viðræður við HH til umræðu. Þar samþykktu háskólaráðsfulltrúar einróma tillögu um að fela rektor að hefja formlegar viðræður um mögulega stofnun háskólasamstæðu á þeim grunni sem lagður hefur verið. „Í því samhengi er m.a. mikilvægt að tryggja aðkomu starfsfólks og nemenda að málinu. Samhliða verði hafin athugun á því hvort aðild að slíkri háskólasamstæðu geti verið eftirsóknarverður kostur fyrir fleiri innlenda háskóla og rannsóknastofnanir,“ segir enn fremur í bókun háskólaráðs.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, segir þetta mikilvægan áfanga og hann lítur björtum augum á framhaldið. „Í kjölfar fýsileikagreiningarinnar verður nú farið dýpra ofan í samstarfs- og samlegðarfleti, þ.á m. atriði sem tengjast fjár- og húsnæðismálum. Ætlunin er að niðurstaða formlegra viðræðna liggi fyrir síðar á þessu ári,“ segir rektor.
 

Aðalbyggingar Háskólans á Hólum og Háskóla Íslands