Kennsludagar með gæði kennslunnar í háskerpu
„Eitt af grundvallarmarkmiðum Kennsluakademíu opinberu háskólanna er að efla samtal um kennslu og það er einmitt markmið Kennsludaga – að tala opinskátt um kennslu í nokkrar daga.“
Þetta segir Margrét Sigrún Sigurðardóttir, dósent við Viðskiptafræðideild HÍ og liðsmaður í Kennsluakademíunni en hún er fyrrverandi formaður hennar. Hér er Margét Sigrún að tala um Kennsludaga sem verða í opinberu háskólunum vikuna 11. til 15. mars. Þá er ætlunin að eiga vítækt samtal um mikilvægi samskipta, kennslu og kennsluþróunar á háskólastigi en dagarnir eru haldnir í samstarfi við Kennslumiðstöð HÍ og Háskólann á Akureyri. Mikill fjöldi spennandi viðburða hefur verið skipulagður í þágu þessa átaks sem eru ætlaðir háskólakennurum og nemendum og í raun öllum sem hafa áhuga á umræðum og fræðslu um gæðakennslu.
„Ef það er eitthvað sem við í Kennsluademíunni höfum lært af því að eiga samtal um kennsluna þá er það hversu miklu auðveldari kennslan verður þegar maður ræðir hana við aðra. Langoftast lumar einhver á ráði við vandamáli sem við höfum verið að kljást við og oftar en ekki eru það litlu atriðin, sem er auðvelt að taka upp, sem skila mestum árangri.“
Margrét Sigrún segir að kennsla hafi í sögulegu samhengi gjarnan verið á bak við luktar dyr. Enginn hafi í raun rætt hana að ráði.
„Við viljum breyta þessu og í stað þess að sitja ein með þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir í kennslu, ætlum við að læra hvert af öðru og stuðla þannig á endanum að bættri kennslu og meiri ánægju í kennslu, bæði fyrir nemendur og kennara.“
„Við Háskólann hafa kennarar verið að nota ýmsar þekktar nýjar aðferðir og á Kennsludögum verður meðal annars hægt að skrá sig í heimsókn í kennslustundir þar sem mörgum þessara aðferða er beitt,“ segir Margrét Sigrún Sigurðardóttir, dósent við Viðskiptafræðideild HÍ og liðsmaður í Kennsluakademíunni. MYND/Kristinn Ingvarsson
Samtalið brýnt til að bæta kennsluhætti
Margrét Sigrún segir að samtal um kennslu á háskólastigi hafi á undanförnum árum færst yfir í það að tala um nemendamiðaða kennslu og vikari kennsluhætti.
„Ef við veltum sögunnni aðeins fyrir okkur þá varð fyrirlesturinn ríkjandi kennslufyrirkomulag þegar skortur var á kennslubókum og kennarinn var sá sem sat sjálfur á þekkingunni og miðlaði henni. Í dag hins vegar hafa nemendur okkar aðgang að nánast ótakmörkuðu efni á netinu til dæmis. Þau eru heldur ekki vön línulegri dagskrá heldur því að geta nálgast allt það efni sem þau vilja á sínum forsendum á tíma sem hentar þeim. Þetta og tilkoma gervigreindarinnar sem nemendur geta í raun notað eins og einkakennara ef þau skilja ekki eitthvað, gerir það að verkum að nemendum finnst tíma þeirra oft ekkert sérstaklega vel varið í fyrirlestri.“
Margrét Sigrún segir að rannsóknir styðji það líka að nemendur læri minna af því að hlusta á fyrirlestur en að kljást sjálfir við námsefnið í tímum.
„Áherslan undanfarið hefur því verið á það hvernig við getum virkjað nemendur í tímum. Við Háskólann hafa kennarar verið að nota ýmsar þekktar nýjar aðferðir og á Kennsludögum verður meðal annars hægt að skrá sig í heimsókn í kennslustundir þar sem mörgum þessara aðferða er beitt.“
Hér má sjá heildardagskrá Kennsludaga og eru nemendur og kennarar hvött til að taka þátt.