Frönskufestival við Háskóla Íslands
Efnt verður til Frönskufestivals í Veröld – húsi Vigdísar á alþjóðlegum degi frönsku 20. mars í tilefni af 50 ára afmæli Félags frönskukennara á Íslandi. Franska hefur verið kennd við Háskóla Íslands frá stofnun hans árið 1911 og Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti, kenndi franskar leikhúsbókmenntir við HÍ og hefur verið heiðursfélagi í Félagi frönskukennara frá 1995.
Rósa Elín Davíðsdóttir, aðjunkt í frönskum fræðum við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands og stjórnarmaður í Félagi frönskukennara, segir að eitt af meginhlutverkum félagsins sé að halda mikilvægi frönskukennslu og frönskukunnáttu á lofti og því verði frönskunám við Háskóla Íslands kynnt á afmælishátíðinni. Hún segir að námsframboðið sé í sífelldri þróun og nú sé boðið upp á tvær diplómanámsleiðir í frönskum fræðum auk hefðbundins BA- og MA-náms. Frá og með næsta hausti verði hægt að stunda nám í diplómanáminu bæði í stað- og fjarnámi. Nýjasta námsleiðin nefnist Franska í alþjóðasamskiptum sem er 60 eininga diplómanám ætlað fólki sem er í faglegum samskiptum við frönskumælandi þjóðir. „Þetta nám er sniðið að sérfræðimenntuðu fólki, t.d. læknum og lögfræðingum sem starfa hjá alþjóðastofnunum eða sem hafa hug á að auka möguleika sína á komast í slík störf. Það sama gildir auðvitað um háskólanema sem eigi sér slík markmið, t.d. í stjórnmálafræði og alþjóðasamskiptum,“ segir Rósa Elín.
Rósa Elín Davíðsdóttir, aðjunkt í frönskum fræðum við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands og stjórnarmaður í Félagi frönskukennara, í kennslustund í frönskum fræðum.
Frönskufestivalið hefst kl. 16:30 og stendur dagskráin til kl. 18:00. Það eru Félag frönskukennara á Íslandi og námsgrein í frönsku við Háskóla Íslands sem standa fyrir hátíðinni í samstarfi við sendiráð Frakklands og Kanada á Íslandi og Alliance française í Reykjavík. Fulltrúar sendiráðanna munu veita upplýsingar um námsframboð og möguleika fyrir Íslendinga í Frakklandi og Kanada. Einnig gefst gestum kostur á að taka þátt í ratleik um franska tungu og í boði verða ljúfir franskir tónar og franskar pönnukökur.
Dagskrá 15:30-16:30 í Auðarsal
- Verðlaunaafhending í myndbandasamkeppni frönskunemenda. Sendiherra Frakklands á Íslandi, Guillaume Bazard, veitir verðlaunin við hátíðlega athöfn. Veitt verða verðlaun í tveimur flokkum, grunnskólanemenda og framhaldsskólanema.
- Nemendur úr Laugalækjarskóla og Landakotsskóla syngja á frönsku.
Opið hús í Veröld kl. 16:30 til 18:00 (fyrir framan Auðarsal og kaffihús – hæð 0)
- Hljómsveitin Les métèques spilar ljúfa tóna.
- Boðið verður upp á crêpes frá Krepjavík, afmælisköku og kaffi.
- Einnig verður hægt að kynna sér námsframboð í frönsku bæði á Íslandi og erlendis.