Ríflega 30 verkefni vísindamanna á sviði samfélagsvirkni styrkt
Fræðsluefni um pöddur og ágengar tengundir á Íslandi, hlaðvarp um samsæriskenningar, upplýsingasíða fyrir foreldra barna með frávik í máli og tali, verkefni tengt Palestínu, verkefni um stúlkur og knattspyrnu og fræðsluefni um sáttanefndir eru meðal ríflega 30 verkefna á vegum vísindamanna Háskóla Íslands sem hljóta styrk úr sjóði innan skólans sem styður við virka þátttöku vísindamanna í samfélaginu.
Styrkjum var nú úthlutað í fimmta sinn úr sjóðnum og reyndust umsóknir 62. Ríflega 50% verkefna fengu því styrk að þessu sinni, samanlagt að upphæð rúmlega 40 milljónir króna. Markmið sjóðsins er ekki síst að styðja við samfélagsleg áhrif skólastarfs HÍ og er styrkjunum ætlað að skapa akademísku starfsfólki aukið svigrúm til samtals við samfélagið í krafti rannsókna sinna og sérþekkingar.
Verkefnin sem hljóta styrk að þessu sinni eru á öllum fimm fræðasvæðum skólans og jafnframt á vegum rannsóknasetra skólans á landsbyggðinni. Verkefnin eru mjög fjölbreytt og sýna svo ekki verður um villst ólík viðfangsefni vísindamanna skólans og tengsl þeirra við ýmsa kima íslensks samfélags. Verkefnin eru á ýmsu formi, m.a. hlaðvörp, fræðsluefni og -vefsíður, málþing og ráðstefnur, hátíðir og vinnustofur og margs konar annar fróðleikur sem allur er ætlaður íslensku samfélagi.
Háskóli Íslands þakkar öllum umsækjendum fyrir framlag þeirra til verkefna á sviði samfélagsvirkni. Styrkþegum er óskað hjartanlega til hamingju með styrkinn.