Hefði helst viljað halda áfram og læra meira
Héðinn Unnsteinsson, stefnumótunarsérfræðingur og rithöfundur, lauk námi í sálgæslu frá Endurmenntun HÍ í fyrra. Héðinn hefur komið að geðheilbrigðismálum í rúm 30 ár með einum eða öðrum hætti og var formaður Geðhjálpar í þrjú ár. Hann segir námið hafa komið sér vel og að það hafi dýpkað reynslu sína.
„Það sem stendur upp úr í náminu er fyrst og fremst hvernig það tók hamskiptum. Fyrst lærir maður um eitthvað; sorg, missi, áföll, kenningar og slíkt. Fyrr en varir er maður svo farinn að vinna með þætti sem snúa að eigin reynslu,“ segir Héðinn og að hann hafi skynjað að samnemendur hans hafi verið honum sammála um að lífsreynsla þeirra varð viðfang námsins með tímanum.
„Þetta verður mjög persónulegt. Það er áskorun og getur hjálpað - en áskorun sem kom á óvart. Það sem maður lærði um fann síðan stað innra með manni. Ég er búin að vera meira í stefnumótun en þetta var meira á persónulegum nótum. Þetta hjálpaði varðandi meiri nánd og dýpt. Ég hefði helst viljað halda áfram og læra meira um þetta.“
Nám í sálgæslu byggir á að greina og vinna með trúar- og tilvistarþarfir, upplifanir og úrvinnslu reynslu. Í öllum námskeiðum er byggt á sjálfsrýni og unnið með verklegar æfingar sem miða að því að nemendur reyni sig í ýmsum hlutverkum.
Styrkleiki að kennarar séu ólíkir
Héðinn segir að honum hafi fundist einstaklingarnir mjög áhugaverðir sem skrifuðu námsbækurnar og margir þeirra voru gestakennarar. Einnig samspil kennaranna sem leiddu námið. „Þau sem leiddu námið voru ólíkar persónur, eins og ying og yang, með ólíka nálgun og það fannst mér mikill styrkleiki.“
Af 25 nemendum sem brautskráðust úr sálgæslu vorið 2023 voru aðeins tveir karlar og Héðinn segir að það þurfi endilega fá fleiri karla inn. Hópurinn hafi þó verið á ýmsum aldri og víða að úr samfélaginu. Eins og gefur að skilja sé mismunandi eftir einstaklingum á hvaða stað þeir eru í lífinu og það geti verið þrúgandi að takast á við missi og sorg á jafningjagrundvelli í námi sem þessum – en jafnframt séu allir nemendur að læra að takast á við það á sama tíma og með góða leiðbeinendur.
Úr ráðgjafahlutverkinu í einstaklingsviðtöl
Aðspurður segir Héðinn að hugmyndin sé að nýta námið til að vinna meira með fólki, maður á mann. „Mig langar að fara úr ráðgjafahlutverkinu og í að hjálpa fólki á einstaklings-basis. Þetta nýtist svo vel í lífinu. Maður tekur líka út úr sálgæslunáminu tengsl og samskipti. Tengsl grundvalla allt okkar líf; tengsl við aðra og sjálf okkur og æðri mátt. Og samskipti koma út frá tengslum. Vinkona mín fór í þetta mælti með því og ég mætti á kynningarfund og lét svo slag standa. Ég mæli því hiklaust með því, sérstaklega fyrir karlmenn. Hér er öll þjónusta og aðstaða til fyrirmyndar,“ segir Héðinn að lokum.