Háskólahlaup í blíðskaparveðri
Stór hópur stúdenta og starfsfólks Háskóla Íslands reimaði á sig hlaupa- og gönguskóna og tók þátt í Háskólahlaupinu miðvikudaginn 10. apríl. Þetta var í fyrsta sinn í fimm ár sem hlaupið var haldið.
Ákveðið var að endurvekja hlaupið í ár og var þetta í þrettánda sinn sem það fór fram með núverandi fyrirkomulagi. Markmið hlaupsins er í senn að leiða saman nemendur og starfsfólk í skemmtilegum viðburði í og við háskólasvæðið og stuðla að bættri heilsu háskólafólks.
Hlauparar gátu valið á milli tveggja vegalengda, 3 km og 7 km. Þriggja kílómetra hlaupaleiðin lá m.a. meðfram Suðurgötu, út að Reykjavíkurflugvelli og meðfram friðlandinu í Vatnsmýri en sjö kílómetra leiðin í kringum Reykjavíkurflugvöll.
Alls voru hátt í 90 þátttakendur skráðir til leiks að þessu sinni og ræsti Ingibjörg Gunnarsdóttir, aðstoðarrektor vísinda, hópinn í skeifunni fyrir framan Aðalbyggingu að lokinni upphitun undir stjórn Guðbjargar Finnsdóttur. Óhætt er að segja að veðurguðirnir hafi verið hliðhollir hlaupurum en blíðskaparveður var í borginni, hægur vindur og þurrt.
Veitt voru verðlaun fyrir þá sem komu fyrst í mark á báðum vegalengdum og gaf Félagsstofnun stúdenta verðlaunin.
Í efstu sætum urðu:
3 km - konur
1. sæti Verena Karlsdóttir
2. sæti Ikonija Stanimirović
3. sæti Maria Kallio
3 km - karlar
1. sæti Jonathan Linz
2. sæti Ásgeir Bjarnason
3. sæti Guðmundur Ásgeir Guðmundsson
7 km - konur
1. sæti Daría Jósefsdóttir
2. sæti Bryndís Reynisdóttir
3. sæti Emily Cremins
7 km - karlar
1. sæti Guilio Cerbai
2. sæti Mohamed Abdelbar
3. sæti Jón Gunnar Þorsteinsson
Heildarúrslit Háskólahlaupsins má finna á vef Tímatöku.net.
Háskóli Íslands þakkar þeim stóra hópi sem tók þátt í hlaupinu kærlega fyrir daginn!