HÍ og Háskólinn á Hólum semja um stjórnskipan háskólasamstæðu
Háskóli Íslands (HÍ) og Háskólinn á Hólum (HH), sem báðir eru opinberir háskólar, hafa gert samkomulag um grunnatriði stjórnskipulags háskólasamstæðu þar sem þessir tveir háskólar og hugsanlega fleiri starfa saman undir merkjum samstæðu sem lýtur sameiginlegri yfirstjórn. Meðal markmiða háskólasamstæðunnar nýju er aukin fjölbreytni í námsframboði, þróun námsgreina með áherslu á þarfir atvinnulífs og samfélags, samþætting prófgráða, aukin þjónusta við nemendur og kennara, breyttar aðferðir við kennslu og aukið rannsóknasamstarf. Samkomulagið var undirritað í vikunni af Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Hólmfríði Sveinsdóttur, rektor Háskólans á Hólum, og Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands.
Háskólasamstæðan nýja mun sameinast um stjórnsýslu og stoðþjónustu og nýta þannig þær grunnstoðir sem fyrir eru í HÍ. Um er að ræða samskipta- og kynningarmál, alþjóðamál, gæði og stjórnarhætti, auk allra stoðsviða HÍ sem eru kennslusvið, vísinda- og nýsköpunarsvið, fjármálasvið, upplýsingatæknisvið, mannauðssvið, framkvæmda- og tæknisvið auk notendamiðaðrar þjónustu og þróunarverkefna. Aðrir háskólar og stofnanir í samstæðunni munu einnig leggja til grunnstoða sameiginlegrar stjórnsýslu samstæðunnar eftir því sem við á. Sameiginleg stjórnsýsla háskólasamstæðunnar verður þannig samræmd og mun vinna fyrir alla háskóla og stofnanir samstæðunnar.
Í samkomulaginu kemur fram að háskólar og stofnanir innan samstæðunnar muni þróast bæði sjálfstætt og í samstarfi og samvinnu á sviðum kennslu og rannsókna. Kapp verði lagt á að hver háskóli og stofnun haldi sinni sérstöðu og styrkleikum og að nauðsynleg uppbygging innviða eigi sér stað, sem forsenda fullgildrar þátttöku í samstæðunni.
Gert er ráð fyrir að einn rektor verði yfir háskólasamstæðunni og mun rektor flaggskipsháskólans, sem er Háskóli Íslands, verða rektor samstæðunnar. Einnig er gert ráð fyrir því að rektor HÍ verði formaður háskólaráðs samstæðunnar en þar munu einnig sitja fulltrúar samstarfsháskóla.
Samhliða er gert ráð fyrir að stjórnendur háskóla og stofnana innan samstæðunnar skipi samstarfsráð háskólasamstæðunnar og verður samsetning samstarfsráðsins nánar útfærð í þríhliða samningi HÍ, HH og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins. Samstarfsráðið verður stefnumótandi um samstarf og starfsemi háskóla og stofnana innan samstæðunnar. Ákvörðunum samstarfsráðsins verði fylgt eftir hjá sameiginlegri stjórnsýslu háskólasamstæðunnar.
Í beinu framhaldi af samkomulaginu sem undirritað var munu HÍ og HH vinna eftir fyrirliggjandi verkáætlun um stofnun háskólasamstæðunnar auk þess sem fyrirhugaður þríhliða samningur sem tilgreindur er í samkomulaginu verður undirbúinn. Gert er ráð fyrir að háskólasamstæðan verði formlega stofnsett á næsta ári.