„Árangur af starfi háskóla blasir alls staðar við“
„Nú bíða ykkar ný og spennandi tækifæri og ótal áskoranir sem þið eruð vel í stakk búin til að takast á við og munið vaxa af, hvert og eitt ykkar. Það blasir hvarvetna við árangurinn af starfsemi háskóla, okkar fremstu mennta- og rannsóknastofnana, og alltaf fjölgar þeim sem njóta þeirra dýrmætu gæða sem felast í háskólamenntun.“
Þetta sagði Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, þegar hann hvatti þau 2.652 sem brautskráðust frá skólanum í dag til að hafa jákvæð áhrif í samfélagi sem er að taka gríðarlegum breytingum.
„Við stöndum nú á þröskuldi nýrra tíma og ein ástæða þess er einmitt síaukið samstarf vísindamanna af ólíkum fræðasviðum. Veruleikinn er ekki hólfaður niður eftir faggreinum og áskoranir framtíðar krefjast þess að við tökum öll höndum saman. Stórstígar framfarir í þróun og notkun gervigreindar munu vafalítið stórefla tækifæri til þverfræðilegs samstarfs. Og gríðarleg reiknigeta ofurtölva og risastór gagnasöfn munu auka sýn okkar yfir öll svið veruleikans og samfélagsins.“
Miklir möguleikar í gervigreind í háskólum
Jón Atli sagði í ávarpi sínu að þegar litið til væri möguleikanna hvað gervigreind snertir þá værum við vart búin að taka fyrstu skrefin í hagnýtingu hennar. „Gervigreindin mun ekki einvörðungu umbylta rannsóknum, heldur mun hún ekki síður gerbreyta umhverfi náms og kennslu og móta nýja starfshætti háskóla. Hún mun skapa ný tækifæri til að opna háskólanám fyrir ungu fólki og auka áhuga þess á vísindum og fræðum.“
Háskólarektor sagði í ávarpi sínu að gervigreindin væri ekki bara eins og hvert annað hjálpartæki. Hún birtist okkur einnig sem sjálfstæður veruleiki. Tækni sem virðist geta hugsað eins og við eða jafnvel hugsað fyrir okkur. Hún veki því ekki bara vonir og væntingar heldur líka spurningar um sjálfskilning okkar sem einstaklinga og þjóðar.
„Vitaskuld geta tækniframfarir orðið svo hraðar að okkur svimar við sjálfa tilhugsunina. Við vitum einnig af biturri reynslu styrjalda og átaka að því fer fjarri að tækniframförum fylgi sjálfkrafa aukinn siðferðisþroski. Og enn á ný blása því miður vályndir vindar um jarðkringluna. Við sem vijum helga líf okkar leitinni að þekkingu, skilningi og frelsi treystum því að stríð og sundrung spilli ekki þroskabraut mannsins til frambúðar,“ sagði Jón Atli.
Nýsköpun aldrei verið meiri innan HÍ
Þau sem brautskráðust í dag fara nú annaðhvort út í samfélagið til að hafa þar áhrif eða halda áfram á braut menntunar en hún er eitt það allra brýnasta sem þjóðir geta aflað sér til að mæta samkeppni framtíðarinnar.
Innan háskólanna er vagga nýsköpunar en rektor HÍ sagði í ávarpi sínu að nýsköpun við Háskóla Íslands hefði aldrei staðið betur en einmitt nú og að aldrei hafi verið jafn spennandi að starfa á vettvangi vísinda og fræða.
„Um vísindin gildir það sama og um vináttuna,“ sagði Jón Atli, „því meira sem af þeim er gefið því stærri verða þau. Og af nógu er að taka. Við blasa óþrjótandi ráðgátur um eðli mannlegrar vitundar og hegðunar, grunngerð veruleikans, framtíð samfélagsheilda og lífríkis, eðli þekkingar og vægi uppeldis og tómstunda og þannig mætti lengi telja.“
Mikils virði að búa í landi þar sem kosningar fara friðsamlega fram
Um þessar mundir fagna Íslendingar 80 ára afmæli lýðveldisins og Háskólarektor vék máli sínu að forsetakjörinu fyrir skemmstu. Hann óskaði Höllu Tómasdóttur til hamingju með kjörið og velfarnaðar í mikilvægu starfi forseta Íslands. Á sama tíma bauð hann fráfarandi forseta, Guðna Th. Jóhannesson, prófessor í sagnfræði, velkominn aftur til starfa við Háskóla Íslands.
„Aldrei hafa jafn margir boðið sig fram til embættis forseta og umræðurnar hafa sjaldan verið fjörlegri og þeim miðlað með jafn fjölbreyttum hætti. Það er mikils virði að búa í landi þar sem val um þau sem við kjósum til forystu fyrir okkar hönd fer friðsamlega fram og við öll unum lýðræðislegri niðurstöðu.“
Jón Atli þakkaði jafnframt Katrínu Jakobsdóttur, fyrrverandi forsætisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra, innilega fyrir hennar stuðning við starf Háskóla Íslands á undanförnum árum.
Áður en háskólarektor kvaddi kandídatana í dag sagði hann hlutverk vísindafólks okkar að leita sífellt nýrra leiða og lausna svo við megum halda áfram að auka velsæld og njóta til fulls þeirra ævintýra sem lífið hefur upp á að bjóða.
„Látið gott af ykkur leiða. Með góðan ásetning og einlægan vilja getið þið gengið fagnandi til móts við framtíðina og notið líðandi stundar.“