Rekstrarstyrkir til doktorsnema við Háskóla Íslands
Tuttugu og sex doktorsnemar við Háskóla Íslands hafa nú fengið úthlutað rekstrarstyrkjum vegna doktorsverkefna sinna úr Doktorssjóði Styrktarsjóða Háskóla Íslands fyrir árið 2023. Doktorsnemarnir eru af öllum fræðasviðum háskólans og nemur heildarupphæð styrkjanna 6,3 milljónum króna.
Doktorssjóður Styrktarsjóða HÍ var settur á laggirnar árið 2019 og grundvallast á sameiningu sjóða sem heyra undir Styrktarsjóði Háskóla Íslands, sem ekki hafa verið virkir um árabil, tengjast ekki ákveðnum fræðasviðum og/eða deildum Háskóla Íslands.
Stjórn sjóðsins skipa þau Ingibjörg Gunnarsdóttir, aðstoðarrektor vísinda, og er hún jafnframt formaður stjórnar, Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri sameiginlegrar stjórnsýslu, og Guðlaug Þóra Kristjánsdóttir, skrifstofustjóri Miðstöðvar framhaldsnáms.
Tilgangur sjóðsins að styðja við og efla doktorsnám við háskólann.
Stúdentar sem skráðir eru til doktorsnáms við Háskóla Íslands og hlutu nýja framfærslustyrki úr Doktorssjóði háskólans 2023, þ.e. Háskólasjóði Eimskipafélags Íslands og Rannsóknasjóði Háskóla Íslands, fá allt að 300.000 kr. ráðstöfunarfé til reksturs doktorsverkefnis. Með nýjum styrkjum úr Doktorssjóði 2023 er átt við að fyrsta styrkgreiðslan úr sjóðnum hafi verið greidd til styrkþega árið 2023.
Um sjóðinn
Doktorssjóður Styrktarsjóða Háskóla Íslands er sameinaður sjóður eftirtalinna sjóða sem stofnaðir voru undir hatti Styrktarsjóða skólans: Sjóðasafns Háskóla Íslands, Gjafasjóðs Guðmundar J. Andréssonar gullsmiðs, Gjafar Gunnar Th. Bjargmundssonar, Framfarasjóðs B. H. Bjarnasonar kaupmanns, Gjafar Soffíu Jónsdóttur Sörensen, Háskólasjóðs Stúdentafélags Reykjavíkur, Gjafasjóðs Guðmundar Thorsteinssonar, Styrktarsjóðs Ragnheiðar Jónsdóttur og Minningarsjóðs Theódórs Johnson.
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk.