Snjallræði 2024 - Frá hugmynd til áhrifa: nýsköpun í þágu samfélagsins
- Ertu með hugmynd að því hvernig á að minnka matarsóun eða sporna gegn loftslagsbreytingum?
- Viltu þróa leiðir til að auka tækifæri jaðarsettra hópa til fullrar samfélagsþátttöku?
Nú er tækifærið til að hrinda slíkum hugmyndum í framkvæmd! Snjallræði er 16 vikna vaxtarrými sem styður við öflug teymi sem brenna fyrir lausnum á áskorunum samtímans.
Opið er fyrir umsóknir til 9. ágúst!
Það er einfalt að sækja um. Hugmyndin þarf ekki að vera fullmótuð - hún þarf bara að hafa jákvæð áhrif á samfélagið!
Hvað getur Snjallræði boðið þér?
- 16 vikna prógram í samstarfi við MIT designX
- Aðstöðu í Grósku, suðupotti nýsköpunar í Vatnsmýrinni
- Þjálfun frá erlendum og innlendum sérfræðingum í samfélagslegri nýsköpun
- Tengslanet innan nýsköpunarsamfélagsins
Hvað færðu út úr þátttöku í Snjallræði?
Markmið Snjallræðis, sem nú er haldið í sjötta sinn, er að styðja við nýsköpunarteymi sem vilja láta gott af sér leiða og jafnframt styðja við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Þungamiðja Snjallræðis eru vinnustofur á sviði nýsköpunar og hönnunarhugsunar sem haldnar eru í samstarfi við MITdesignX.
Teymin taka þátt í fjórum tveggja daga vinnustofum hér á landi á vegum MIT designX. Vinnustofurnar fara fram á fjögurra vikna fresti en þess á milli njóta teymin handleiðslu færustu sérfræðinga hér á landi við að þróa lausnirnar áfram. Vinnustofurnar eru þemaskiptar og taka á mismunandi þáttum í þróunarferlinu, allt frá þarfa- og hagaðilagreiningu, hönnun á sjálfbæru viðskiptamódeli og fjárhagsáætlunum yfir í tengslamyndun og framkomu.
Hægt er að fá frekari upplýsingar um Snjallræði á vefsíðu verkefnisins.
Snjallræði er samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri og Háskólans í Reykjavík. Bakhjarlar eru: Marel, Vísindagarðar og Reykjavíkurborg.