Betri stuðningur við erlenda málhafa í HÍ og bætt íslenska í upplýsingaumhverfi
Aukið framboð íslenskunámskeiða fyrir erlent starfsfólk og frekari stuðningur við nemendur með annað móðurmál en íslensku, endurskoðuð málstefna HÍ og betri aðlögun lykilupplýsinga- og samskiptakerfa innan skólans að íslensku máli er meðal þess sem málefnd Háskóla Íslands hefur unnið að undanfarin þrjú ár, en skipunartíma hennar lauk þann 1. júlí.
Sérstök málnefnd hefur verið starfandi við Háskóla Íslands frá árinu 2016. Málnefndin heyrir undir rektor og er skipuð fulltrúum allra fimm fræðasviða skólans, fulltrúa sameiginlegrar stjórnsýslu skólans og fulltrúa stúdenta auk formanns nefndarinnar sem skipaður er af rektor. Meginhlutverk málnefndarinnar er að vera stjórnendum og öðru starfsfólki skólans til ráðuneytis um málefni íslenskrar tungu og gera tillögur um framkvæmd málstefnu skólans.
Fyrsta málstefna skólans leit dagsins ljós fyrir 20 árum en samkvæmt lögum eiga öll sveitarfélög, skólar og stofnanir ríkisins að setja sér slíka stefnu. Markmiðið með málstefnu HÍ er m.a. að stuðla að því að íslensk tunga sé áfram töluð innan HÍ nú þegar skólinn verður sífellt virkari í alþjóðlegu fræðastarfi en jafnframt er stefnunni ætlað að ýta undir það að íslenska sé nothæf – og notuð – á öllum fræðasviðum.
Íslenskunámskeiðum fjölgað úr fjórum í tíu
Undanfarin þrjú ár hafa þau Sigríður Sigurjónsdóttir, prófessor á Hugvísindasviði, Hafsteinn Einarsson, dósent á Verkfræði- og náttúruvísindasviði, Jóhanna Thelma Einarsdóttir, prófessor á Heilbrigðisvísindasviði og Menntavísindasviði, Jón Yngvi Jóhannsson, dósent á Menntavísindasviði, Ragnheiður Kristjánsdóttir, prófessor á Hugvísindasviði, Silja Bára Ómarsdóttir og Ingólfur Vilhjálmur Gíslason, prófessorar á Félagsvísindasviði, Magnús Diðrik Baldursson, skrifstofustjóri rektorsskrifstofu í miðlægri stjórnsýslu, og Atli Jasonarson og Piergiorgio Consagra, fulltrúar stúdenta, setið í málnefndinni og sannarlega ekki auðum höndum.
„Málnefndin ákvað strax í upphafi starfstíma síns að leggja megináherslu á að tryggja starfsfólki og nemendum skólans af erlendum uppruna íslenskukennslu og aðra stoðþjónustu í íslensku,“ segir Sigríður Sigurjónsdóttir, sem gegndi starfi formanns nefndarinnar á skipunartímanum.
Hún bendir á að samkvæmt upplýsingum frá mannauðssviði séu um 18% af starfsfólki og um 10% af nemendum skólans af erlendu bergi brotið og hefur fjölgað hratt í báðum hópum á undanförnum árum. „Allt bendir til að þessi þróun haldi áfram og enn meiri fjölgun verði í þessum hópi á næstu árum enda er það á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar að fjölga erlendum sérfræðingum og nemendum við íslenska háskóla,“ bendir Sigríður á.
Til þess að stuðla að því að þessi stóri hópur geti betur tekið þátt í bæði háskólasamfélaginu og íslensku samfélagi fór málnefndin þess á leit við rektor að efla starfsemi Tungumálamiðstöðvar HÍ og Ritvers HÍ með auknum fjárframlögum þannig að hægt yrði að bjóða upp á fleiri íslenskunámskeið fyrir starfsfólk og aukinn stuðning við nemendur og starfsfólk við skrif á íslensku.
„Rektor tók vel í þessar tillögu málnefndarinnar og með aukinni fjárveitingu gat Tungumálamiðstöð því í fyrra og ár boðið upp á tvöfalt fleiri íslenskunámskeið fyrir starfsfólk skólans með íslensku sem annað mál. Undanfarin ár hafa yfirleitt verið fjögur námskeið í boði árlega en í ár eru tíu námskeið í boði, sem nokkurn veginn anna eftirspurn fastráðins starfsfólks. Í ár er einnig boðið upp á fjarnámskeið fyrir starfsfólk sem starfar úti á landi, t.d. á háskólasetrum,“ segir Sigríður enn fremur og bætir við að næsta skref sé að tryggja stundakennurum og doktorsnemum íslenskukennslu og fjölga íslenskunámskeiðum fyrir það starfsfólk HÍ sem er lengra komið í íslenskunámi.
Innan skamms munu talskilaboð á íslensku koma á undan sjálfvirku ensku símsvaraskilaboðunum í þeim tilvikum þegar fólk nær ekki í þann sem það er að hringja í á Teams. „Upplýsingatæknisvið sér um breytinguna sem kemur til framkvæmda í byrjun ágúst. Það að íslensk símsvaraskilaboð fari á undan enskum talskilaboðum, sem ekki afskræma íslensk nöfn notenda, skiptir máli fyrir ásýnd Háskólans út á við og er í takt við samsvarandi breytingar í samfélaginu á undanförnum árum,“ segir Sigríður Sigurjónsdóttir.
Gríðarleg eftirspurn eftir þjónustu Ritvers HÍ
Í Ritveri HÍ geta nemendur og starfsfólk af öllum sviðum skólans sótt stuðning við fræðileg skrif, bæði á íslensku og ensku, og hefur gríðarleg eftirspurn verið eftir þjónustu þess. Þess vegna lagði málnefndin áherslu á að rekstrargrundvöllur versins yrði styrktur. „Málnefndin hefur talað fyrir því að staða forstöðumanns Ritversins verði auglýst, en hún er bara tímabundin núna, og að brýn þörf sé á því að ráða annan fastan starfsmann í Ritverið sem getur svarað því ákalli allra fræðasviða að veita nemendum af erlendum uppruna stuðning,“ segir Sigríður og bætir við að málnefndinni hafi ekki tekist að koma þessu baráttumáli sínu í höfn á skipunartímanum.
Hún bætir við að ef vel eigi að vera þurfi að tryggja bæði Tungumálamiðstöð og Ritveri HÍ fasta fjárveitingu frá Háskólanum árlega vegna íslenskunámskeiða og stoðþjónustu í íslensku og ensku. „Baráttunni fyrir bættu aðgengi starfsfólks og nemenda HÍ með íslensku sem annað mál að ókeypis íslenskukennslu og stoðþjónustu í fræðilegum skrifum á íslensku og ensku innan HÍ er því hvergi nærri lokið,“ segir Sigríður enn fremur.
Endurskoðuð málstefna
Annað viðamikið verkefni nefndarinnar var endurskoðun á málstefnu skólans en hún var samþykkt í háskólaráði síðla árs í fyrra. „Endurskoðun málstefnunnar að þessu sinni fólst bæði í efnislegum og formlegum breytingum þar sem stefnan var uppfærð í takt við kröfur samtímans og flæði textans gert betra. Einnig var sérstaklega hugað að því að málstefnan stangist ekki á við lög og reglur skólans,“ segir Sigríður og bendir á að málstefnan sé einnig aðgengileg á ensku.
Sigríður undirstrikar að málstefnur skóla, stofnana og sveitarfélaga eigi samkvæmt lögum að vera stuttar og hnitmiðaðar. „Málstefna HÍ er því almenn stefnumótun, ekki lög eða reglur, sem getur aldrei endurspeglað allt það fjölbreytta starf sem fer fram innan Háskóla Íslands,“ segir Sigríður og bætir við að formaður hafi kynnt málstefnuna á fræðasviðum skólans undanfarið ár.
Teams og Canvas í betri íslenskan búning
Á undanförnum árum hafa erlenda samskipta- og upplýsingakerfið Teams og námsumsjónarkerfið Canvas verið innleidd í HÍ en hvort tveggja á uppruna sinn erlendis. Málnefnd HÍ hefur lagt áherslu á að starfsfólk og nemendur geti nýtt þau í íslensku málumhverfi og m.a. barist fyrir því að símsvörun í Teams sé ekki einungis á ensku heldur einnig íslensku. Innan skamms munu talskilaboð á íslensku koma á undan sjálfvirku ensku símsvaraskilaboðunum í þeim tilvikum þegar fólk nær ekki í þann sem það er að hringja í á Teams.
„Upplýsingatæknisvið sér um breytinguna sem kemur til framkvæmda í byrjun ágúst. Það að íslensk símsvaraskilaboð fari á undan enskum talskilaboðum, sem ekki afskræma íslensk nöfn notenda, skiptir máli fyrir ásýnd Háskólans út á við og er í takt við samsvarandi breytingar í samfélaginu á undanförnum árum,“ segir Sigríður enn fremur.
Þegar kemur að Canvas-námsumsjónarkerfinu, sem allir háskólar landsins og þar með allir háskólanemar og -kennar nýta, bendir Sigríður á að ýmsu sé ábótavant í íslenskri þýðingu kerfisins. Því hafi málnefnd HÍ sent ályktun á alla rektora og sviðsstjóra kennslu- og upplýsingasviða íslenskra háskóla nýverið þar sem nefndin segist óttast að óvönduð og oft óskiljanleg þýðing Canvas hafi neikvæð áhrif á málnotkun háskólanema. Einnig muni það lita viðhorf þeirra til íslensku að ekki sé hirt um að þýða enskar viðbætur við kerfið. „Brýn þörf er á að endurskoða íslenska þýðingu Canvas og þýða nýjungar og viðbætur við kerfið sem enn hafa ekki verið íslenskaðar og birtast notendum á ensku,“ segir nefndin í ályktun sinni.
Þessu til viðbótar segir Sigríður að nefndin hafi sinnt ýmsum öðrum störfum, fundað með ýmsum aðilum innan skólans um málefni tungunnar, skrifað umsagnir, t.d. um drög að aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023–2026, og svarað fyrirspurnum úr ráðuneytum varðandi kennslumál og annað tengt málstefnu HÍ.
Skipunartíma nefndarinnar lauk 1. júlí og því er þess að vænta að ný nefnd taki til starfa á nýju skólaári.