Dragtir Vigdísar og ljósmyndir tengdar skjásamfélaginu í HÍ á Menningarnótt
Tvær sýningar verða opnar á háskólasvæðinu á Menningarnótt í Reykjavík, laugardaginn 24. ágúst. Sýning á drögtum Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, verður opnuð í Loftskeytastöðinni við Suðurgötu og á neðstu hæð Háskólastorgs geta gestir skoðað ljósmyndasýninguna Firring skjásamfélagsins undir leiðsögn höfundar.
Sem fyrsti kvenforseti heimsbyggðarinnar braut Vigdís Finnbogadóttir blað á marga vegu. Meðal annars skar hún sig úr í hópi jakkafatakæddra karlkyns kollega með glæsilegum litríkum drögtum og vakti mikla athygli fyrir fágaða og fallega framkomu. Hluti af þessum glæsilega klæðnaði verður til sýnis á jarðhæð Loftskeytstöðvarinnar og opnar sýningin kl. 13 þann 24. ágúst. Hún mun svo standa til 7. september.
Sýningin Firring skjásamfélagsins var opnuð í gær á Háskólatorgi. Sýningin er byggð á nýrri bók Viðars Halldórssonar, prófessors í félagsfræði við HÍ, sem ber heitið Sjáum samfélagið. Sýningin verður opin frá kl.13.30 til 15.30 á Menningarnótt og verður höfundur að sjálfsögðu á staðnum.
Samhliða þessu gefst gestum Loftskeytastöðvarinnar tækifæri til að skoða sýninguna „Ljáðu mér vængi, ævi og áhrif Vigdísar Finnbogadóttur“ á miðhæð Loftskeytastöðvarinnar. Meðal annars verður boðið upp á leiðsögn með Kolbrúnu Halldórsdóttur, formanni BHM og fyrrverandi forseta Bandalags íslenskra listamanna, um sýninguna en hún segir frá kynnum sínum af Vigdísi og samstarfi þeirra að fjölbreyttum verkefnum.
Hinum megin Suðurgötu, nánar tiltekið á neðstu hæð Háskólatorgs, geta áhugasöm svo kíkt á ljósmyndasýninguna Firring skjásamfélagsins, nýstárlega félagsfræðilega ljósmyndasýningu sem beinir gagnrýnum sjónum að ótilætluðum áhrifum víðtækrar skjánotkunar á samskipti og samfélag.
Sýningin er byggð á nýrri bók Viðars Halldórssonar, prófessors í félagsfræði við HÍ, sem ber heitið Sjáum samfélagið. Sýningin verður opin frá kl.13.30 til 15.30 á Menningarnótt og verður höfundur að sjálfsögðu á staðnum. Enn fremur geta áhugasöm kíkt á sýninguna til 13. september.