Ótal viðburðir á nýnemadögum HÍ
Kynning á tækifærum í skiptinámi á vegum Háskóla Íslands, pop-up markaður á vegum Bóksölu stúdenta, danskennsla, tónleikar, kynning á fjölbreyttri þjónustu skólans og fótboltamót Stúdentaráðs er meðal þess sem boðið verður upp á á nýnemadögum í Háskóla Íslands sem fara fram dagana 26.-30. ágúst. Allir nýnemar og aðrir stúdentar eru hvattir til að taka þátt í dagskránni.
Kennsla hófst í flestum deildum Háskóla Íslands í liðinni viku og þessa dagana stíga þúsundir nemenda sín fyrstu skref í skólanum. Til þess að auðvelda þeim lífið og ýta undir þátttöku í félagslífi stendur Háskólinn fyrir fjölbreyttri dagskrá í nýnemavikunni í samstarfi við bæði stúdenta og ýmsa aðila á háskólasvæðinu.
Alla vikuna verður upplýsingaborð fyrir nýnema opið frá kl. 10-14 á Háskólatorgi. Þar standa fulltrúar frá Stúdentaráði fyrir svörum um hvað sem er sem varðar námið, skólann, húsnæði, félagslíf, þjónustu og margt fleira.
Kynntu þér þjónustu skólans
Liður í nýnemadögum er kynning á þjónustueiningum Háskólans en þær verða með kynningarbása á Háskólatorgi mánudaginn 26. ágúst kl. 11.30-13 og þar geta nemendur fengið svör við fjölmörgum spurningum.
Nemendur geta til að mynda hitt starfsfólk frá Nemendaráðgjöf, Alþjóðasviði, Nemendaskrá, Tungumálamiðstöð, Ritveri, Landsbókasafni og Smáuglunni – appi Háskóla Íslands. Á staðnum eru líka fulltrúar frá Stúdentaráði, sjálfbærni- og umhverfismálum innan HÍ, Háskólakórnum, Háskóladansinum, Félagi hinsegin stúdenta og Félagsstofnun stúdenta sem rekur Bóksölu stúdenta, Leikskóla stúdenta, Stúdentagarða, Stúdentakjallarann og fleira.
Í lok kynningarinnar kl. 13 stígur Háskólakórinn á stokk á Háskólatorgi og tekur nokkur lög um leið og hann kynnir starfsemi sína. Kórinn verður svo með raddprufur 2. og 3. september fyrir áhugasöm.
Skiptinám og góðir dílar
Háskóli Íslands er í samstarfi við yfir 400 háskóla út um allan heim sem skapa einstök tækifæri fyrir nemendur til að stunda hluta af háskólanámi sínu við erlenda háskóla, öðlast alþjóðlega reynslu og skapa sér sérstöðu. Til að kynna þessa fjölbreyttu möguleika stendur Alþjóðasvið skólans fyrir á örkynningu á skiptinámi í stofu 104 á Háskólatorgi miðvikudaginn 28. ágúst kl. 12.30-13.00. Hún er öllum opin.
Fimmtudaginn 29. ágúst verður Bóksala stúdenta svo með pop-up markað milli kl. 10 og 12 á Háskólatorgi. Þar býðst nýnemum og öðrum nemendum gjafavara, sápur, bækur og HÍ-varningur á feikigóðu verði – allt það besta sem Bóksalan hefur upp á að bjóða á tilboði.
Í hádeginu verður svo hitað upp fyrir Októberfest Stúdentaráðs með tónleikum á Háskólatorgi en tilkynnt verður síðar hvaða tónlistarmaður stígur á stokk.
Föstudaginn 30. október er svo komið að hinu árlega og sívinsæla nýnemamóti Stúdentaráðs í fótbolta. Það verður haldið á grasfletinum framan við Aðalbyggingu og hefst kl. 11. Þar geta allir nemar tekið þátt í fótbolta með sínu nemendafélagi og þarf hvert lið að vera skipað 7 keppendum, þar af einum nýnema en það er um að gera að hafa fjölbreytni kynja í fyrirrúmi í liðsskipan. Sigurvegarar fótboltamótsins hljóta farandbikar ásamt öðrum veglegum vinningum og þá eru einnig veitt verðlaun fyrir skemmtilegasta búninginn. Félagslífs- og menningarnefnd Stúdentaráðs auglýsir mótið nánar á Facebook.
Hægt er kynna sér viðburðina á nýnemadögum á viðburðadagatali á vef skólans.
Nýnemar eru einnig hvattir til að kynna sér nýnemasíðu skólans á hi.is/nynemar