Styrkir til rannsóknaverkefna í heilbrigðis- og lífvísindum
Tvö verkefni hafa hlotið styrk úr STAFNI: Styrktarsjóði Brynju Einarsdóttur og Arnar Almarssonar við Háskóla Íslands. Þetta er í fyrsta sinn sem úthlutað er úr sjóðnum og heildarupphæð styrkja nemur fjórum milljónum króna.
Markmið sjóðsins er að stuðla að menntun og víðsýni efnilegs námsfólks í raungreinum, heilbrigðisvísindum, verkfræði og tölvugreinum, s.s. innan gervigreindar og lífupplýsingafræði. Einkum er litið á umsóknir sem tengjast heilsu, líftækni og lyfjaþróun á einhvern hátt. Sjóðurinn veitir styrki til íslenskra nemenda við og frá Háskóla Íslands sem eru í framhaldsnámi hér heima eða erlendis og tengja saman greinar í vinnu sinni. Sjóðnum er ætlað að efla samvinnu milli ólíkra fræðasviða og hvetja námsfólk til að tengja saman mismunandi tæknisvið og -greinar.
Erna María Jónsdóttir, doktorsnemi við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands, hlýtur styrk fyrir verkefni sem snýr að þróun á nýju nanólyfjaformi með aukna sækni í svokölluð EGFR1 jákvæð krabbamein, eins og ákveðin brjóstakrabbamein. Erna er lyfjafræðingur sem lokið hefur BS og MS í lyfjafræði frá Háskóla Íslands og vann í fjögur ár við myndgreiningu krabbameinssýna í samstarfsverkefni Landspítalans, deCODE og Amgen. Hún hefur unnið með utanfrumubólur frá árinu 2019 og í verkefninu hennar er tvinnað saman líftækni og nanótækni þar sem frumulínum verður umbreytt í þeim tilgangi að losa utanfrumubólur sem nanólyfjaform. Utanfrumubólurnar verða með svokallaða peptíðbindla á yfirborði sínu sem tengjast viðtökum á yfirborði EGFR1-jákvæðra krabbameinsfrumna. Utanfrumubólurnar verða hlaðnar með krabbameinslyfjum og/eða umbreyttu Cas9 próteini með CRISPR/Cas9-aðferðinni til þess að eyða markvisst krabbameinsfrumum og koma í veg fyrir útbreiðslu þeirra. Vonir standa til að með aðferðafræðinni verði til ný meðferð gegn EGFR1-jákvæðum krabbameinum og síðar verði hægt að þróa nýja tegund krabbameinslyfja sem byggjast á nanólyfjaberum.
Doktorsverkefnið er unnið undir handleiðslu Berglindar Evu Benediktsdóttur, dósents og deildarforseta við Lyfjafræðideild, og Jens Guðmundar Hjörleifssonar, lektors við Líf- og umhverfisvísindadeild.
Valdís Gunnarsdóttir Þormar, doktorsnemi í heilbrigðisvísindum við Háskóla Íslands, hlýtur styrk fyrir þverfaglegt verkefni á sviði læknisfræði, efnafræði og tölvunarfræði. Markmið verkefnisins er að auka nákvæmni í greiningu á brjóstakrabbameini með því að þróa nýja greiningaraðferð þar sem gervigreind er notuð til að vinna úr gögnum sem fást úr svokallaðri massamyndgreiningu á krabbameinsæxlum. Valdís hefur fjölbreyttan bakgrunn en hún stundaði áður nám við Háskólann í Árósum í Danmörku og útskrifaðist þaðan með MS-gráðu í þjóðhagfræði árið 2009. Eftir að hafa starfað í mörg ár sem ráðgjafi hjá alþjóðlegum ráðgjafafyrirtækjum, bæði erlendis og á Íslandi, hóf hún aftur nám og lauk BS-gráðu í næringarfræði fyrr á þessu ár samhliða doktorsnámi sínu í heilbrigðisvísindum.
Valdís vinnur doktorsverkefnið undir leiðsögn Sigríðar Klöru Böðvarsdóttur, forstöðumanns Lífvísindaseturs, og Margréti Þorsteinsdóttur, prófessors við Lyfjafræðideild, og einbeitir sér að því sem fyrr segir að þróa nýja og bætta greiningaraðferð á brjóstakrabbameini með einangrun nýrra lífmerkja. Verið er að leita að lífmerkjum í flokki smásameinda og lípíða með massamyndgreiningu á brjóstakrabbameinsvef. Um er að ræða nýja greiningaraðferð sem er líkleg til að vera næmari og áreiðanlegri en núverandi meinafræðigreining með mótefnalitun á krabbameinsvef. Massamyndgreining er líkleg til að geta aðgreint undirhópa sjúkdómsins og þannig auðveldað val á meðferðarúrræði og mögulega spáð fyrir um þróun meðferðarþols.
Stofnendur sjóðsins, þau Brynja Einarsdóttir og Örn Almarsson, voru viðstödd fyrstu úthlutunina í Hátíðasal Aðalbyggingar. Þau tóku við þakklætisvotti úr hendi Jóns Atla Benediktssonar, rektors HÍ. MYND/Gunnar Sverrisson.
Um sjóðinn
STAFN: Styrktarsjóður Brynju Einarsdóttur og Arnar Almarssonar var stofnaður 5. janúar 2024. Stofnendur sjóðsins, Brynja Einarsdóttir snyrtifræðingur og Örn Almarsson efnafræðingur, eru hafnfirsk hjón, búsett í Bandaríkjunum, en með rætur og starfsemi á Íslandi. Örn útskrifaðist úr efnafræði frá Háskóla Íslands árið 1988.
Sjóðurinn starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og í stjórn sjóðsins sitja Eiríkur Steingrímsson, prófessor við Heilbrigðisvísindasvið sem jafnframt er formaður stjórnar, Margrét Helga Ögmundsdóttir, prófessor við Heilbrigðisvísindasvið, og Steinn Guðmundsson, prófessor við Verkfræði- og náttúruvísindasvið.
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk.