Skip to main content
23. október 2024

UNESCO mælir með nýstárlegu námskeiði HÍ um hafið og sjálfbærni

UNESCO mælir með nýstárlegu námskeiði HÍ um hafið og sjálfbærni - á vefsíðu Háskóla Íslands

Mennta-, menningar- og vísindastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) mun mæla með (e. endorse) námskeiði í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands um hafið og sjálfbærni í tengslum við Áratug hafsins á vegum stofnunarinnar. Þessi viðurkenning vekur athygli á nýstárlegri nálgun sem beitt er innan framhaldsnáms í umhverfis- og auðlindafræði í málefnum hafsins og sjálfbærni og opnar fyrir möguleika annarra háskóla á að nýta sér þessa nálgun umhverfis- og auðlindafræðinnar í kennslu um þessi viðfangsefni og áskorarnir tengd þeim.

Áratugurinn 2021-2030 er helgaður hafvísindum í þágu sjálfbærrar þróunar á vegum UNESCO (e. The UN Decade of Ocean Science for Sustainable Development) undir yfirskriftinni „Vísindin sem við þurfum í þágu hafsins sem við viljum“. Markmiðið með framtakinu er að finna lausnir sem stuðla að sjálfbærni og vinna á þeim vandamálum sem blasa við hafinu.

Tíu áskoranir hafa verið skilgreindar í tengslum við Áratug hafsins en þær snerta m.a. jafn mikilvæg viðfangsefni og mengun í hafinu, endurheimt og varðveislu vistkerfa og líffræðilegs fjölbreytileika í hafinu, sjálfbær sjávartengd hagkerfi og haftengdar lausnir við loftslagsbreytingum. 

Aðrir háskólar geta nýtt kennsluformið

Námskeiðið Hafið og sjálfbærni, sem er í boði í meistaranámi í umhverfis- og auðlindafræði í Háskóla Íslands, var endurskipulagt fyrir yfirstandandi haustmisseri í kringum þessar tíu áskoranir. Í námskeiðinu fást nemendur m.a. við viðfangsefni eins og sjálfbæra fæðuöflun fyrir heiminn, kortlagningu hafsbotnsins, mengun í hafi og haflæsi. 

Námskeiðið er sett þannig upp að hvaða háskóli eða menntastofnun sem er, sem býður upp á kennslu í sjálfbærni, getur tekið það upp á arma sína. Því höfðu aðstandendur þess samband við UNESCO og óskuðu eftir því að vakin yrði athygli á þessu nýstárlega námskeiði sem möguleika fyrir aðra háskóla. 

„Þessi auglýsing UNESCO er afar mikil viðurkenning á störfum okkar,“ segir Bridget Burger, kennari í námskeiðinu en hún vann að endurskoðun námskeiðsins ásamt Mary Frances Davidson, fyrrverandi starfsmanni Sjávarútvegsskólans (UNESCO GRO fisheries training programme) og fyrrverandi nema í umhverfis- og auðlindafræði. „Með endurskoðun námskeiðsins í kringum 10 áskoranir Áratugar hafsins á vegum UNESCO fá nemendur einstakt tækifæri til þess að fást við raunveruleg vandamál sem tengjast hafinu. Vandamálin eru flókin og það þarf að nálgast þau frá sjónarhorni fjölmargra hagaðila og leysa í þverfræðilegu samstarfi. Með þeirri nálgun greiðum við leið til sjálfbærrar framtíðar fyrir mannkyn, hafið og auðlindir þess. Vísindin eru grundvöllur fyrir því að hægt sé að takast á við þessar áskoranir sem ganga þvert á fræðigreinar og því er þörf á nýrri nálgun,“ segir Bridget.

Það felst mikill ávinningur og viðurkenning fyrir Háskóla Íslands í því að UNESCO mæli með námskeiðinu að sögn Bridget. „Það kynningarstarf sem fara mun fram í gegnum vefsíðu UNESCO mun vekja athygli á því góða starfi sem fram fer á vegum námsleiðar í umhverfis- og auðlindafræði við HÍ og vekur um leið athygli á skólanum og námskeiðinu á alþjóðavettvangi.“

Heimsþekktir sérfræðingar koma að kennslunni

„Markmið námskeiðsins er að veita yfirsýn yfir áskoranir áratugar hafsins en um leið öðlast nemendur þá færni sem til þarf til þess að fást við þær. Helstu sérfræðingar á þeim sviðum sem snerta áskoranirnar, svo sem hagfræði, vistfræði, menntunarfræði og stefnumörkun og lagaumgjörð á sviði hafsins, koma að kennslu í námskeiðinu, sumir þeirra heimsþekktir,“ segir Lára Jóhannsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindafræði og forstöðumaður námsins. Hún nefnir sem dæmi að Stefan Rahmstorf, prófessor við Potsdam-háskóla og einn þekktasti loftslagsvísindamaður heims, flytji erindi fyrir nemendur í námskeiðinu og náminu.

Einnig er farið í vikulegar heimsóknir þar sem ljósi er varpað á þá vinnu sem þegar fer fram víða í samfélaginu og tengist viðfangsefnum námskeiðsins. Nemendur glíma einnig við fjölbreytt verkefni í gegnum tilviksrannsóknir og stefnugreiningar. „Þetta er afar góð leið til þess að þjálfa næstu kynslóð sérfræðinga til þess að fást við þessi vandamál,“ segir Lára enn fremur.

Það felst mikill ávinningur og viðurkenning fyrir Háskóla Íslands í því að UNESCO mæli með námskeiðinu að sögn Bridget. „Það kynningarstarf sem fara mun fram í gegnum vefsíðu UNESCO mun vekja athygli á því góða starfi sem fram fer á vegum námsleiðar í umhverfis- og auðlindafræði við HÍ og vekur um leið athygli á skólanum og námskeiðinu á alþjóðavettvangi.“

„Við erum afar ánægð með að fá þessa viðurkenningu fyrir námskeiðið í tengslum við Áratug hafsins hjá UNESCO,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands. „Sjálfbærni er ein af aðaláherslunum í stefnu skólans, HÍ26. Við viljum leggja okkar að mörkum til sjálfbærari heims og samfélaga í gegnum rannsóknir, kennslu og samtal við samfélagið enda eru viðfangsefnin sem blasa við okkur aðkallandi og stór. Sem mikilvæg stofnun í íslensku samfélagi viljum við ganga á undan með góðu fordæmi og það er námskeiðið í umhverfis- og auðlindafræði svo sannarlega. Þessi viðurkenning styrkir enn frekar ásetning okkar að stuðla að sjálfbærni hafsins á alþjóðavettvangi og við munum halda áfram að veita leiðtogum framtíðarinnar innblástur með nýstárlegri nálgun í kennslu.“

Hægt er að kynna sér Áratug hafsins og áskoranir tengdar honum á vef áratugarins og námsleið í umhverfis- og auðlindafræði á vef HÍ.
 

Fuglar á sjó