Skip to main content
30. október 2024

Yfir þúsund íþróttamenn nýtt sér mælingar hjá rannsóknastofu HÍ

Yfir þúsund íþróttamenn nýtt sér mælingar hjá rannsóknastofu HÍ - á vefsíðu Háskóla Íslands

Landsliðsfólk í sundi og hjólreiðum og knattspyrnufólk úr fjölmörgum efstudeildarliðum í knattspyrnu og körfuknattleik hafa nýtt sér framúrskarandi aðstöðu til íþróttamælinga á Rannsóknarstofu í íþrótta- og heilsufræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands sem staðsett er í Laugardalshöll. Á því ári sem liðið er síðan rannsóknarstofan var opnuð hafa yfir þúsund íþróttamenn á öllum getustigum nýtt sér aðstöðuna, sem er sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi, en jafnframt hefur hún nýst einstaklega vel sem kennslu- og rannsóknavettvangur fyrir nemendur í íþrótta- og heilsufræði við HÍ.

Þann 31. október er slétt ár síðan rannsóknarstofan var opnuð og hún hefur á skömmum tíma orðið hornsteinn kennslu og rannsókna í íþróttavísindum og -kennslu innan skólans. Rannsóknastofan er búin tækjum sem jafnast á við það besta sem gerist í heiminum í dag í íþróttamælingum og -rannsóknum.

„Á því ári sem liðið er síðan við opnuðum höfum við boðið upp á fjölda námskeiða fyrir nemendur, t.d. í lífaflfræði, lífeðlisfræði, styrktarþjálfun, afreksíþróttum og frjálsíþróttum. Okkur hefur tekist að byggja upp aðlaðandi lærdómsumhverfi þar sem nemendur HÍ öðlast bæði fræðilega þekkingu og hagnýta reynslu. Með því að nýta þessi háþróuðu tæki læra þau ekki aðeins meira heldur búa sig undir að starfa í faginu til framtíðar. Hvort sem nemendurnir hverfa til starfa í grunn- eða framhaldsskólum, hjá íþróttafélögum eða sem einkaþjálfarar þá útskrifast þau með þá kunnáttu og það sjálfstraust sem þarf til að hafa raunveruleg áhrif á starfsvettvangnum,“ segir Milos Petrovic, lektor við námsbraut í íþrótta- og heilsufræði við Menntavísindasvið HÍ, sem hefur umsjón með rannsóknarstofunni.

Fremstu knatttspyrnudómarar landsins þurfa að gæta þess að vera í afar góðu formi og þeir hafa því nýtt sér mælingar á vegum Milosar en að samstarfinu við Knattspyrnudómarafélag Íslands kemur einnig Guðberg K. Jónsson, forstöðumann Félagsvísindastofunar Háskóla Íslands.

Gjörbylti aðstöðu til rannsókna

Rannsóknarstofan gjörbyltir möguleikum starfsfólks og nemenda til framúrskarandi rannsókna sem bæta við þekkingu á sviði íþróttavísinda og heilsu. „Rannsóknirnar auðga ekki aðeins störf okkar vísindafólksins heldur nýtast einnig mjög fjölbreyttum hópi, allt frá afreksíþróttafólki sem vill hámarka árangur sinn til almennings sem vill bæta heilsu sína og líðan,“ segir Milos enn fremur.

Hin nýja aðstaða gerir það líka mögulegt að klæðskerasauma lausnir og mælingar að ólíkum einstaklingum og hópum enda hefur íþróttafólk, hvort sem það er að keppa eða hreyfa sig sér til skemmtunar og heilsueflingar, ólíkar þarfir. „Á þessu fyrsta ári höfum við ekki bara þjónustað landslið heldur einnig almenning sem stundar íþróttir af krafti en með því viljum við undirstrika að við störfum í þágu alls íþróttafólks,“ segir Milos.

Johanna Lilja

Jóhanna Lilja Jónsdóttir, landsliðskona í skíðaíþróttum, í frammistöðumælingu á Rannsóknastofu HÍ í íþrótta- og heilsufræði í Laugardal.

Þau sem notað hafa aðstöðuna eru á öllum aldri og á öllum getustigum. „Með því að þróa sérhæfðar áætlanir og framkvæma markvissar rannsóknir viljum við ýta undir inngildingu og aðgengi að íþróttavísindum fyrir öll. Við hlökkum til að halda áfram að beita nýjum aðferðum og vaxa á næstu árum með framúrskarandi vísindastarfi tengdu íþróttum, heilsu og menntun,“ bætir Milos við. 

Fjölbreyttur hópur afreksíþróttafólks hefur nýtt aðstöðuna í Laugardalshöll og má þar nefna landsliðið í sundi og hjólreiðum ásamt knattspyrnufólki frá flestum af fremstu liðum landsins, eins og Breiðablik, Víkingi, KR, Val, Fjölni, ÍA, Þrótti, FH, Stjörnunni, Fylki, Vestra, HK og KA. Þá hafa körfuboltamenn úr KR, Fjölni, Val, Haukum og Aþenu nýtt sér aðstöðuna til undirbúnings fyrir keppni og æfingar.

Runar Mar

Margt af fremsta knattspyrnufólki landsins hefur nýtt sér aðstöðuna í Laugardal. Hér er Rúnar Már Sigurjónsson, leikmaður ÍA og fyrrverandi landsliðsmaður, í mælingum hjá Milosi.

Auk þeirra má nefna afreksfólk í handbolta, lyftingum og skíðaíþróttum að ógleymdum knattspyrnudómurum sem þurfa að gæta þess að vera í afar góðu formi en það verkefni er unnið í samstarfi við Guðberg K. Jónsson, forstöðumann Félagsvísindastofunar Háskóla Íslands. „Margir af þessum gestum okkar, hvort sem er í eintaklings- eða hópíþróttum, hafa fengið ítarlegar mælingar á styrk sínum og getu á rannsóknastofunni. Við höfum einblínt á að mæla frammistöðu hvort sem er á undirbúningstímabili, á keppnistímabilinu sjálfu eða utan þess. Við höfum enn fremur stutt fjölda íþróttafólks við að ná bata eftir meiðsli sem tengjast stoðkerfinu og að ná fyrri og jafnvel meiri styrk. Við vonumst enn fremur til þess að styrkt starf okkar enn frekar þegar við flytjum í Sögu þar sem aðstaðan verður stærri og við fáum frekari búnað. Allur okkar búnaður er færanlegur þannig við getum farið með hann hvert sem er í kennslu, í skóla, sundlaugar og íþróttahús, svo dæmi séu tekin“ segir Milos að endingu.

Rannsóknastofa í íþrótta- og heilsufræði í tölum

Á fyrsta árinu hafa:

  • Yfir þúsund íþróttamenn nýtt sér þjónustu rannsóknastofunnar.
  • Skjólstæðingar rannsókastofunnar framkvæmt yfir 11 þúsund stökk.
  • Íþróttamenn úr 16 mismunandi greinum nýtt sér aðstöðuna.
  • 18 nemendur unnið lokaverkefni sem grundvallast á rannsóknum á rannsóknastofunni.
  • Vísindamenn á rannsóknastofunni ýtt úr vör sex ólíkum rannsóknarverkefnum sem hafa það að markmiði að auka skilning á hreyfingu hjá mismunandi hópum (áhugahlauparar, afreksfólk, grunnskólanemar, fólk með sjúkdóma, sérsveit lögreglunnar) og fjórir doktorsnemar og tíu meistaranemar koma að þeim.
  • Aðstandendur rannsóknarstofunnar komið á samstarfi við Sundsamband Íslands, Hjólreiðasamband Íslands og Knattspyrnudómararafélag Íslands.
  • Vísindamenn á rannsóknastofunni birt 11 vísindagreinar sem byggjast á gagnasöfnun á rannsóknastofunni.
  • Vísindamenn stofnað til rannsóknasamstarfs við háskóla í Króatíu, Slóveníu, Úrúgvæ, Serbíu, Bandaríkjunum og á Englandi og Spáni.
Milos Petrovic ásamt Þráini Hafsteinssyni, samstarfsfélaga sínum, og körfuboltafólki úr íþróttafélaginu Aþenu en þau hafa nýtt sér vel þær mælingar sem rannsóknastofan býður upp á til mælinga á árangri.