Háskólasjóður Eimskipafélagsins 60 ára
Í dag, 11. nóvember, eru 60 ár liðin frá því að Háskólasjóður hf. Eimskipafélags Íslands var stofnaður. Sjóðurinn var stofnaður til minningar um þá Vestur-Íslendinga sem tóku þátt í stofnun Eimskipafélagsins.
Alls hafa 199 doktorsnemar við Háskóla Íslands hlotið styrk frá því að farið var að greiða styrki úr sjóðnum með reglubundnum hætti. Heildarúthlutun styrkja frá upphafi nemur rúmum 1,8 milljörðum króna, en þar af voru greiddar 500 milljónir króna til byggingar Háskólatorgs Háskóla Íslands á árunum 2006 og 2007. Sjóðurinn er stærsti styrktarsjóður landsins.
„Háskólasjóður Eimskipafélagsins hefur valdið straumhvörfum í fjármögnun doktorsnáms á Íslandi. Þegar sjóðurinn hóf að styðja við doktorsnám árið 2006 tók rannsóknanám við HÍ stakkaskiptum þar sem skólanum var með framlagi sjóðsins kleift að leggja aukna áherslu á rannsóknir og nýsköpun. Í kjölfarið margfaldaðist fjöldi brautskráðra doktora og mælanlegur árangur skólans í rannsóknum og nýsköpun jókst verulega, eitthvað sem skiptir íslenskt samfélag verulegu máli. Við þessa breytingu má því með sanni segja að Háskóli Íslands hafi orðið fullburða rannsóknaháskóli. Til viðbótar má nefna afar mikilvægan stuðning sjóðsins við byggingu Háskólatorgs. Tilkoma Háskólatorgs gerbreytti háskólasvæðinu til hins betra, en enginn sambærilegur miðpunktur var þar til staðar áður en torgið kom. Háskólatorg er hjarta háskólasvæðisins og nú er ekki hægt að hugsa sér HÍ án þess,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.
Það var Grettir Eggertsson sem beitti sér fyrir stofnun sjóðsins til minningar um alla þá Vestur-Íslendinga sem hlut áttu að stofnun Eimskipafélagsins. Faðir Grettis, Árni Eggertsson, hafði átt stóran hlut í þátttöku Vestur-Íslendinga í stofnun Eimskipafélagsins 1914. Hugmynd Grettis var að í ljósi breyttra aðstæðna skyldi unnið að því að allt hlutafé Vestur-Íslendinga í Eimskipafélaginu kæmi heim til Íslands, styddi við starfsemi félagsins en gagnaðist jafnframt góðu málefni. Málefnið sem hann valdi var „að stuðla að velgengni Háskóla Íslands, svo og að styrkja efnilega stúdenta til náms við Háskólann eftir ákvörðun háskólaráðs,“ eins og segir í skipulagsskrá sjóðsins sem staðfest var af forseta Íslands 11. nóvember 1964. Af þessu markmiði dró sjóðurinn nafn sitt, Háskólasjóður hf. Eimskipafélags Íslands.