Skip to main content
4. desember 2024

Til San Marínó á vegum Evrópuráðsins

Til San Marínó á vegum Evrópuráðsins - á vefsíðu Háskóla Íslands

Sérþekking fræðafólks Háskóla Íslands nýtist ekki bara innan skólans við kennslu og rannsóknir heldur einnig úti í samfélaginu enda er fræðafólk oft kallað til ráðgjafar af stjórnvöldum og fleiri aðilum utan skólans. Það færist enn fremur í aukana að leitað sé til starfsfólks skólans um að nýta krafta þess og sérþekkingu í þágu mikilvægra mála utan landsteinanna. Gott dæmi um slíkt er verkefni sem Eva Marín Hlynsdóttir, prófessor í opinberri stjórnsýslu, tók þátt í fyrr í haust en þá heimsótti hún smáríkið San Marínó til að kanna stöðu sveitarfélaga þar í landi út frá þeim viðmiðum sem sett eru fram í Evrópusáttmála um sjálfstjórn sveitarfélaga á vegum Evrópuráðsins.

Evrópusáttmáli um sjálfstjórn sveitarfélaga leggur þær skyldur á þau ríki, sem staðfest hafa hann, að tryggja pólítískt, stjórnunarlegt og fjárhagslegt sjálfstæði sveitarstjórna. Jafnframt kveður sáttmálinn á um að gera skuli ráð fyrir sjálfstjórn sveitarfélaga í löggjöf aðildarlanda og mögulega stjórnarskrá og að sveitarstjórnir skuli kjörnar í almennum kosningum. Jafnframt gerir sáttmálinn ráð fyrir að ákvarðanir um málefni borgara skuli teknar af yfirvöldum sem næst borgurunum. 

Ísland er eitt þeirra landa sem hafa fullgilt sáttmálann sem þýðir að landið tilnefnir bæði kjörna fulltrúa á sveitarstjórnarstiginu til setu á Sveitarstjórnarþingi Evrópuráðsins (e. Congress of local and regional authorities) og sérfræðinga í sérfræðingaráð (Group of Independent Experts) um Evrópusáttmála um sjálfstjórn sveitarfélaga. 

„Skipað er í ráðið á fimm ára fresti á grundvelli umsóknar en almenna reglan er sú að skipað er í það á grundvelli sérfræðiþekkingar á sveitarstjórnarmálum og gert er ráð fyrir að viðkomandi sé í akademískri stöðu. Einn frá hverju landi situr í ráðinu og það er m.a. ráðgefandi fyrir Sveitarstjórnarþingið um ýmis málefni sem snerta sveitarstjórnarmál almennt og Evrópusáttmálann um sjálfstjórn sveitarfélaga sérstaklega,“ segir Eva Marín sem setið hefur í sérfræðingaráðinu undanfarin sex ár en hún hefur í rannsóknum sínum við HÍ lagt mikla áherslu á málefni sveitarfélaga. 

Rýndi í stöðu fjögurra sveitarfélaga

Lönd sem hafa undirritað Evrópusáttmála um sjálfstjórn sveitarfélaga gangast undir það að taka á móti sendinefnd frá Sveitarstjórnarþinginu á um 5 ára fresti. Nefndin hefur það hlutverk að meta hvort viðkomandi land uppfylli skilyrði sáttmálans sem þau hafa með undirritun staðfest að þau ætli að gera. Sendinefndin er skipuð tveimur fulltrúum Sveitarstjórnarþingsins, einum starfsmanni Evrópuráðsins og einum sérfræðingi úr sérfræðingaráði Sveitarstjórnarþingsins.

„Ég hef ekki gefið kost á mér í svona verkefni áður þar sem það felst töluvert mikil vinna í því,“ segir Eva Marín sem fór í sína fyrstu heimsókn á vegum sendinefndarinnar til San Marínó um miðjan september ásamt tveimur fulltrúum frá Finnlandi og Hollandi. „Í ferðinni heimsóttum við fjögur sveitarfélög og ýmsar stofnanir og ráðuneyti þar sem farið var yfir hver staða sveitarfélaga er almennt í San Marínó út frá þeim viðmiðum sem sett eru fram í Evrópusáttmála um sjálfstjórn sveitarfélaga og San Marínó hefur gengist undir.“ 

Hlutverk Evu Marínar verður að safna gögnum og skrifa eftirlitsskýrslu um heimsóknina sem lögð verður fyrir Sveitarstjórnarþingið í Strassborg síðar í vetur. „Ég hef að mestu lokið við skýrsluskrifin og næsta eftirlitsferð verður ekki farin til San Marínó fyrr en eftir 5 ár,“ segir Eva Marín um hlutverk sitt.  

Aðspurð segir Eva Marín ferðina hafa verið mjög lærdómsríka. „Svona eftirlitsferð krefst þess að við þekkjum Evrópusáttmálann um sjálfstjórn sveitarfélaga mjög vel. Sáttmálinn nær yfir flest lönd í Evrópu en sveitarstjórnarkerfi eru alls ekki einsleit og oft mikill munur á milli landa. Það er því mjög áhugavert að sjá hvernig ólík ríki leita leiða til að uppfylla sáttmálann um leið og þau beita mjög ólíkum aðferðum við að skipuleggja sín innanríkismál í tengslum við sveitarfélög og sveitarstjórnir. Þetta tengist þannig beint rannsóknum mínum sem hafa fyrst og fremst snúið að sveitarstjórnarmálum,“ segir hún.

En skyldi verða framhald á þessari vinnu á vettvangi Evrópuráðsins? „Ég gæti alveg hugsað mér að fara aftur í svona ferð vegna þess að þetta var gríðarlega lærdómsríkt og ég fékk allt aðra sýn á Evrópusáttmálann um sjálfstjórn sveitarfélaga í gegnum þetta hlutverk heldur en einungis sem almennur meðlimur sérfræðingaráðsins,“ segir Eva Marín að endingu.

 Eva Marín Hlynsdóttir