Nóbelshátíð Heilbrigðisvísindasviðs
Þriðjudaginn 10. desember voru Nóbelsverðlaun í læknisfræði afhent í Stokkhólmi. Að þessu sinni féllu verðlaunin í skaut tveimur bandarískum vísindamönnum, þeim Victor Ambros og Gary Ruvkun fyrir "Uppgötvun á microRNA sameindum og hlutverki þeirra í stjórn genatjáningar/The discovery of microRNA and its role in post-transcriptional gene regulation." Um er að ræða mjög merkilega uppgötvun þar sem microRNA sameindir stjórna tjáningu gena sem eru mikilvæg í þroskun lífvera og viðhaldi. Einnig gegna microRNA mikilvægu hlutverki í fjölmörgum líffræðilegum ferlum sem tengjast sjúkdómum, þar á meðal krabbameinum, taugahrörnunarsjúkdómum og hjartasjúkdómum.
Að þessu tilefni boðaði forseti Heilbrigðisvísindasviðs HÍ, Unnur Anna Valdimarsdóttir, til Nóbelshátíðar sviðsins í Hringsal Landspítalans þar sem Stefán Þórarinn Sigurðsson, prófessor og Magnús Karl Magnússon, prófessor héldu erindi þar sem þeir tæptu á því helsta í uppgötvunum Bandaríkjamannanna og áhrifum þeirra rannsókna á læknavísindi framtíðarinnar. Erindi Stefáns kallaði hann "Ný leið til stjórnunar á genatjáningu" og Magnús Karl velti í sinu erindi upp spurningunni "Hefur skilningur á microRNA varpað ljósi á sjúkdóma eða nýja meðferðarmöguleika?" Var góður rómur gerður að erindum þeirra Stefáns og Magnúsar.
Að þeim loknum veitti Eiríkur Steingrímsson, prófessor og formaður Vísindanefndar Heilbrigðisvísindasviðs, viðurkenningar fyrir áhrifamestu vísindagreinar ársins á sviðinu. Eftirfarandi vísindagreinar hlutu viðurkenningar og voru í framhaldinu kynntar í stuttu máli fyrir gestum:
- Líf- og tilraunavísindi - Gene-based burden tests of rare germline variants identify six cancer susceptibility genes - Erna V. Ívarsdóttir, Kári Stefánsson ofl.
- Klínískar vísindarannsóknir – Risk of chronic kidney disease in individuals on lithium therapy in Iceland: a nationwide retrospective cohort study - Gísli Gíslason, Ólafur S. Indriðason, Engilbert Sigurðsson og Runólfur Pálsson
- Lýðheilsuvísindi – Adverse Childhood Experiences and Adult Mental Health Outcomes - Hilda Björk Daníelsdóttir, Thor Aspelund, Unnur Anna Valdimarsdóttir ofl.
Verðlaunahöfum er öllum óskað til hamingju og velfarnaðar í sínum störfum.