Skip to main content
19. desember 2024

Ný vefsíða tengir saman vísindamenn og ungt fólk á Norðurlöndum

Ný vefsíða tengir saman vísindamenn og ungt fólk á Norðurlöndum - á vefsíðu Háskóla Íslands

Fræðafólk í félags- og hugvísindum við Háskóla Íslands er meðal höfunda efnis á New Nordic Lexicon, nýrri upplýsingasíðu um Norðurlönd sem ætluð er ungu fólki. Vefsíðan hefur að geyma greinar, hlaðvörp og kvikmyndir um norræn samfélög, sögu og menningu og allt efni á vefsíðunni er unnið með þátttöku vísindafólks.

Verkefnið er vistað hjá Árósaháskóla undir hatti nordics.info, vísindamiðlunarvefsíðu sem komið var á laggirnar árið 2018 og er hluti  af rannsóknasamstarfi sem nefnist Reimagining Norden in an Evolving World (ReNEW) og vísindafólk við HÍ tekur þátt í.

Háskóli Íslands leggur í stefnu sinni áherslu á að miðla vísindum til alls samfélagsins og óhætt er að segja að þátttaka í New Nordic Lexicon vefsíðunni falli vel að því. Vefsíðunni er ætlað að brúa bil á milli vísindafólks og ungs fólks á aldrinum 16-30 ára á Norðurlöndum en efnistök byggjast meðal annars á könnunum sem gerðar hafa verið meðal ungs fólks um þær áskoranir sem þessi aldurshópur telur aðkallandi. Þeirra á meðal eru nemendur við Háskóla Íslands.  

Á vefsíðunni er ungu fólki og vísindamönnum jafnframt telft saman í spjall í bæði hlaðvörpum og kvikmyndum/myndböndum sem snerta viðfangsefni eins og enskunotkun á Norðurlöndum, kynjajafnfrétti, stríðið í Úkraínu og loftslagsbreytingar. Alls er að finna 15 hlaðvarpsþætti á síðunni og átta stuttmyndir um fjölbreytt viðfangsefni sem snerta Norðurlöndin.

Vísindamenn við HÍ eru meðal þeirra sem leggja til efni á vefsíðuna en þar má nefna Jón Ólafsson, prófessor við Íslensku- og menningardeild, sem fjallar í grein á vefsíðunni um vinnu við nýja stjórnarskrá á Íslandi og Ásdísi A. Arnalds lektor og Guðnýju Björk Eydal prófessor, báðar við Félagsráðgjafardeild, sem rita grein um íslenskra fæðingarorlofskerfið og þróun þess á öldinni. Þetta efni bætist við frekara efni um Ísland á ensku sem finna má á móðursíðu verkefnisins, nordics.info, en þar er m.a. að finna hlaðvarpsþátt um sögu Íslands sem er sá vinsælasti á síðunni. 

Þeir vísindamenn sem hafa áhuga á að forvitnast frekar um verkefnið eða vilja jafnvel miðla rannsóknum sínum á þessum vettvangi geta haft samband við Nicolu Witcombe, ritstjóra vefsins, í gegnum netfangið nwitcombe@cas.au.dk.

Rannsóknasamstarfið Reimagining Norden in an Evolving World (ReNEW) nýtur stuðnings NordForsk og New Nordic Lexicon hefur fengið stuðning frá A.P. Moller Foundation.
 

Fólk að vinna að hlaðvarpi