Samstarf í rannsóknum á sviði skógræktar og landgræðslu
Háskóli Íslands og Land og skógur hyggjast vinna saman að rannsóknum og þekkingaruppbyggingu á sviði skógræktar og landgræðslu sem m.a. skapar meistara- og doktorsnemum við HÍ tækifæri í verkefnavali. Þetta er meðal þess sem kemur fram í samstarfssamningi sem stofnanirnar hafa gert og er til fjögurra ára.
Með undirritun samningsins hefst jafnframt rannsókna- og þróunarverkefni Lands og skógar og námsbrautar í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands um aukinn skilning á virði þeirrar þjónustu (e. ecosystem services) sem skógar landsins veita samfélaginu. Sumt af þeirri þjónustu er vel þekkt, svo sem framleiðsla á viðarafurðum, en mikilvæg þjónusta eins og á sviði vatnsverndar, líffræðilegar fjölbreytni, kolefnisbindingar, virði lands, byggðaþróunar, nytja, útivistar og afþreyingar er minna þekkt og oft ekki hluti skilnings á virði þjónustu skóga. Þannig er áformað að verkefnið styðji við ákvarðanatöku um áherslur í ræktun nýrra skóga og stjórn nýtingar þeirra skóga sem finnast í landinu.
Land og skógur er stofnun sem varð til við sameiningu Skógræktarinnar og Landgræðslunnar í upphafi árs. Stofnunin fer með málefni skógræktar og landgræðslu og er alhliða þekkingarstofnun á sviði gróður- og jarðvegsauðlinda. Í stefnu Háskóla Íslands, HÍ26, er lögð áhersla á samstarf við samfélagið og rannsóknir sem geti eflt opinbera stefnumótun. Jafnframt er það markmið skólans eiga samstarf við opinberar stofnanir og taka og styðja markviss skref í átt að sjálfbærum heimi í krafti rannsókna og kennslu.
Með þessu samstarfi sjá samningsaðilar því mörg tækifæri til framþróunar, eflingar menntunar og aukinna rannsókna sem muni stuðla að markmiðum beggja aðila.