Prestvígsla kvenna, sjálfsvíg á 19. öld og þróun skírnarritúalsins

Prestvígsla kvenna, sjálfsvíg á 19. öld og þróunarsaga skírnarritúalsins eru umfjöllunarefni greina í nýju hefti Ritraðar Guðfræðistofnunar Háskóla Íslands. Í greininni „Kona í karlahlutverki“ fjallar Arnfríður Guðmundsdóttir, prófessor við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands, um prestvígslu kvenna innan íslensku þjóðkirkjunnar. Tilefni greinarinnar er hálfrar aldar vígsluafmæli Auðar Eirar Vilhjálmsdóttur en hún var fyrst kvenna til að vígjast til prestsþjónustu innan kirkjunnar árið 1974. Arnfríður skýrir hinn sögulega aðdragandavígslunnar og leggur áherslu á mikilvægi nýrra laga frá árinu 1911 sem veittu konum rétt til embættisnáms, námsstyrkja og embætta. Hún varpar einnig ljósi á umræðurnar sem spunnust í kringum vígslu Auðar Eirar árið 1974 en jafnvel þótt komið væri fram á áttunda áratuginn var ekki einhugur um réttmæti prestsþjónustu kvenna. Í síðasta hluta greinarinnar setur Arnfríður umfjöllunarefni greinarinnar í alþjóðlegt samkirkjulegt samhengi með áherslu á umfjöllun í skýrslu Trúar- og skipulagsnefndar Heimsráðs kirkna, um skírn, kvöldmáltíðarsakramenti og þjónustu frá 1982.
Viðfangsefni Hjalta Hugasonar, prófessors emeritus við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands, er sjálfsvíg á nítjándu öld frá þjóðhátta- og sagnfræðilegum sjónarhóli. Í grein sinni varpar Hjalti ljósi á ýmis grundvallaratriði sem snúa að umfjöllunarefninu, t.d. afstöðu ríkis og kirkju til sjálfsvíga eins og hún birtist í lögum og reglum sem giltu um greftrun þeirra sem féllu fyrir eigin hendi. Hjalti fjallar einnig um helstu heimildir sem til eru um sjálfsvíg en þar er einkum um landsmálablöð og sagnarit að ræða og þær áskoranir sem við þessar heimildir eru bundnar. Í síðasta hluta greinarinnar leitast Hjalti við að flokka og greina þau sjálfsvíg sem heimildir hafa fundist um og ræðir sérstaklega sjálfsvíg innan tveggja samfélagshópa sem voru í sérstaklega viðkvæmri stöðu.
Í síðustu grein þessa heftis fjallar Ólafur Jón Magnússon, prestur í Sænsku kirkjunni, um þróunarsögu skírnarritúalsins eins og það birtist í lútherskum helgisiðabókum á Íslandi. Ólafur rekur þessa sögu frá árinu 1555 eins og hún birtist í sjö helstu handbókum lúthersku kirkjunnar á Íslandi, auk tveggja tillagna um handbækur. Hann leitast sömuleiðis við að setja þróunina í hugmyndasögulegt samhengi og sýnir hvernig breytingar á ritúalinu endurspegla guðfræðilegar áherslur hvers tíma. Í því samhengi leggur hann áherslu á mikilvægi upplýsingarstefnunnar en í samræmi við meginatriði hennar dró smám saman úr því vægi sem syndin og veruleiki hins illa höfðu á stöðu skírnarþegans gagnvart Guði, sem og á vægi skírnarinnar sem sáttmála.Hann bendir einnig á að í núgildandi handbók frá 1981 megi finna stefnubreytingu sem varð fyrir áhrif frá nýrétttrúnaði og hinni svonefndu litúrgísku hreyfingu. Fyrir þau sem leggja stund á rannsóknir á sviði guðfræði og trúarbragðafræði er fengur að þeim greinum sem hér birtast. Þá skarast þær allar með ýmsum hætti við ólíkar greinar hug- og félagsvísinda.
Ritröð Guðfræðistofnunar er gefin út í opnum rafrænum aðgangi. Ritstjóri er Haraldur Hreinsson, lektor við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands.