Skip to main content
17. janúar 2025

Yfir 50 styrkir til vísindamanna og doktorsnema úr Rannsóknasjóði

Yfir 50 styrkir til vísindamanna og doktorsnema úr Rannsóknasjóði - á vefsíðu Háskóla Íslands

Vísindafólk við Háskóla Íslands og tengdar stofnanir hlaut rúmlega 50 styrki úr Rannsóknasjóði Íslands í ár, þar á meðal þá tvo öndvegisstyrki sem úthlutað var að þessu sinni. Tilkynnt var um úthlutunina á Rannsóknaþingi Rannís í fimmtudaginn 17. janúar.

Rannsóknasjóður er samkeppnissjóður sem styrkir verkefni á öllum sviðum vísinda. Sjóðurinn veitir allt frá styrkjum til doktorsnema til öndvegisstyrkja en þeir síðarnefndu eru til stórra verkefna sem skara fram úr á sínu sviði og hafa alþjóðlega tengingu.

Alls bárust 381 gildar umsóknir í Rannsóknasjóð og voru 64 þeirra styrktar. Samalagt var úthlutað 1,1 milljarði úr sjóðnum til nýrra verkefna á þessu ári en fram kemur á vef Rannís að þar sem verkefnin eru almennt til þriggja ára verður heildarkostnaður vegna þeirra tæplega 3,2 milljarðar króna á árunum 2025-2027.

Sem fyrr segir voru tveir öndvegisstyrkir veittir að þessu sinni. Báðir renna þeirra þeir til vísindafólks við HÍ. Jose Augusto Belchior Alves, vísindamaður við Stofnun Rannsóknasetra Háskóla Íslands, hýtur styrk til verkefnisins „Kynslóðaskipti: Áhrif æskunnar á viðbrögð stofna við umhverfisbreytingum“, sem snertir rannsóknir á vaðfuglategundum hér á landi, og Margrét Helga Ögmundsdóttir, prófessor við Læknadeild, hlýtur öndvegisstyrk til verkefnisins „Hlutverk ATG7 í efnaskiptum briskrabbameina“.

Af 29 verkefnisstyrkjum í sjö flokkum vísinda sem úthlutað var að þessu sinni koma 23 í hlut vísindamanna HÍ og tengdra stofnana. Styrkirnir eru m.a. á sviði sagnfræði, bókmennta, viðskiptafræði, sálfræði, lýðheilsuvísinda, læknisfræði, lífvísinda, landfræði, rafmagns- og tölvuverkfræði, stærðfræði, efnafræði, jarðskjálftaverkfræði, jarðvísinda og eðlisfræði.

Alls voru veittir tíu nýdoktorastyrkir úr Rannsóknasjóði og átta þeirra hljóta vísindamenn við Háskóla íslands. Þeir koma af sviðum eins og máltækni, sagnfræði, véla- og iðnaðarverkfræði, jarðskjálftaverkfræði og stærðfræði.

Þá bárust Rannsóknasjóði 125 umsóknir um doktorsnemastyrki og styrkti sjóðurinn 23 að þessu sinni. Nítján doktorsnemanna eru við Háskóla Íslands og tengdar stofnanir og fást við jafnfjölbreyttar greinar og menningarfræði, efnafræði, félagsfræði, læknavísindi, almenna bókmenntafræði, sálfræði, mentavísindi, jarðvísindi, sagnfræði, íslenska málfræði, lífvísindi, stjórnmálafræði, líffræði, eðlisfræði og byggingarverkfræði, 

Yfirlit yfir allar styrktar rannsóknir er að finna á vef Rannís.

Styrkþegar úr Rannsóknasjóði ásamt Loga Einarssyni menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra.