Ráðning forstöðumanns að Miðstöð í öldrunarfræðum
Margrét Guðnadóttir hefur verið ráðin forstöðumaður Miðstöðvar í öldrunarfræðum (MíÖ). Miðstöðin er starfrækt undir heilbrigðisvísindastofnun Háskóla Íslands í samvinnu við Landspítala og kemur í stað Rannsóknastofu Háskóla Íslands og Landspítala í öldrunarfræðum (RHLÖ). Miðstöð í öldrunarfræðum hefur það meginmarkmið að efla rannsóknir og samstarf háskóla, fræðafólks, félagasamtaka og stofnana um málefni sem tengjast eldra fólki og stuðla þannig að nýsköpun og þróun í þjónustu við eldra fólk á Íslandi.
Rekstur miðstöðvarinnar byggir á fjárhagslegum stuðningi tveggja ráðuneyta, heilbrigðisráðuneytis og félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins, auk rannsóknarstyrkja og tekna af þjónusturannsóknum og sérverkefnum. Á meðal verkefna miðstöðvarinnar sem lögð hafa verið drög að eru norræn samstarfs- og rannsóknarverkefni. Einnig verður unnið að framgangs- og árangursmati þróunarverkefna á vegum „Gott að eldast“. Öflun gagna og eftirfylgni verður lykilatriði í því að meta framvindu og gagnsemi verkefnanna.
Margrét er hjúkrunarfræðingur með doktorspróf í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands og hefur sérhæft sig í heimahjúkrun. Hún hefur unnið að rannsóknum og þróun á samþættri þjónustu fyrir eldra fólk og fjölskyldur þeirra. Hún hefur stöðu lektors við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands og var áður kennslustjóri í heimahjúkrun hjá Reykjavíkurborg. Þar leiddi hún meðal annars innleiðingu á SELMU-teyminu, sem miðar að sérhæfðri meðferð eldra fólks í heimahúsum og valdeflingu starfsfólks í heimaþjónustu.