Sérhefti Etikk i praksis um Vilhjálm Árnason
Út er komið sérhefti af tímaritinu Etikk i praksis til heiðurs Vilhjálmi Árnasyni, prófessor emeritus í heimspeki við Háskóla Íslands. Etikk i praksis er norrænt fræðitímarit sem fjallar um hagnýtta siðfræði og stjórnmálaheimspeki og er ætlað að skapa vettvang fyrir norrænar rannsóknir á þessu sviði. Í því er fjallað um siðfræði- og félagslegar hliðar vísinda- og tækniþróunar á fjölbreyttum sviðum, rannsóknasiðfræði, lýðræði og menningarrýni.
Í desemberheftinu 2024 er fjallað um verk Vilhjálms í fimm greinum en í inngangi ritstjóra segir að vegna merkilegs framlags Vilhjálms til þverfræðilegra siðfræðirannsókna og hagnýtra áhrifa þeirra hafi verið ákveðið að gefa út þetta sérhefti. Hann hafi byggt mikilvægar brýr milli heilbrigðisvísinda, félagsvísinda og heimspeki og með því hjálpað við að leysa úr álitamálum á sviði lífsiðfræði og fleiri félagslegra sviða, þar á meðal með rannsókn á orsökum og afleiðingum íslenska fjármálahrunsins 2008. Vilhjálmur skrifar líka grein í heftið þar sem nann bregst við greinunum fimm.
Vilhjálmur Árnason, prófessor emeritus, hætti störfum við Háskóla Íslands árið 2023 eftir fjörutíu ára starf. Hann varð prófessor árið 1996 og stýrði jafnframt Siðfræðistofnun Háskóla Íslands frá 1997.