Mikil aðsókn í AWE-frumkvöðlahraðalinn fyrir konur

Háskóla Íslands bárust ríflega 80 umsóknir í AWE-frumkvöðlahraðalinn fyrir konur sem nú er haldinn í fjórða sinn á Íslandi. Tuttugu og fjórar viðskiptahugmyndir voru valdar til þátttöku í hraðlinum og aðstandendur þeirra, 33 konur, hefja í þessari viku vegferð sem miðar að því að þróa hugmyndirnar enn frekar undir leiðsögn reynslumikils hóps kvenna úr íslensku atvinnulífi.
Auglýst var eftir þátttakendum í hraðlinum í kjölfar kynningarfundar í nóvember og ljóst er af umsóknafjöldanum að mikil þörf er fyrir hraðal af þessu tagi. Þátttakendur koma frá öllum landshornum og var sérstök áhersla lögð á að virkja konur af erlendum uppruna á Íslandi og er ánægjulegt að greina frá því frá því að sú viðleitni skilaði sér.
Markmið hraðalsins er að styðja konur í að þróa áfram viðskiptahugmyndir sínar og fyrirtæki og auka hlut þeirra innan frumkvöðla- og nýsköpunargeirans. Þátttakendur verða hluti af náms- og þekkingarsamfélagi þar sem þær njóta handleiðslu reyndra kvenna í nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi við uppbyggingu fyrirtækja, mynda ný tengsl og efla starfsþróun og starfshæfni Aldrei hefur verið mikilvægara en nú að fjölga sprotum og efla nýsköpun í íslensku efnahagslífi og að sama skapi auka hlut kvenna á þeim vettvangi.
Fida Abu Libdeh, forstjóri og annar stofnenda GeoSilica, og Sandra Mjöll Jónsdóttir Buch, nýsköpunarmiðaður leiðtogaþjálfari hjá Fönn ráðgjöf, verða mentorar í hraðlinum en þær búa báðar að mikilli reynslu innan frumkvöðla- og nýsköpunargeirans.
Þá mun öflugur og reyndur hópur sérfræðinga úr háskólasamfélaginu, atvinnulífi og nýsköpunargeiranum á Íslandi koma að fræðslu og kennslu í hraðlinum. Þátttakendur sækja einnig netnámskeiðið Dreambuilder á vegum Thunderbird School of Management við Ríkisháskólann í Arizona.
Upphafsfundur hraðalsins verður þann 23. janúar næstkomandi en í framhaldinu taka við vinnulotur sem eru sérsniðnar að íslenskum aðstæðum og snerta m.a. markaðsmál, stofnun fyrirtækja á Íslandi, tengslanet, öflun styrkja, hugverkamál og samfélagsmiðla svo eitthvað sé nefnt. Hraðlinum lýkur svo þann 30. apríl með útskrift og lokahófi.
Nýsköpunarhraðallinn er haldinn undir merkjum Academy for Woman Entrepreneurs (AWE) í samvinnu við Sendiráð Bandaríkjanna á Íslandi. Aðrir samstarfsaðilar eru Félag kvenna í atvinnulífinu og Samtök kvenna af erlendum uppruna. AWE-verkefnið er í boði í yfir 50 löndum víða um heim á vegum bandarískra stjórnvalda en Ísland er fyrst norrænu ríkjanna til að taka þátt í því.
Nánari upplýsingar um AWE-hraðalinn eru á awe.hi.is og á Facebook-síðu þess.