Skip to main content

Fötlunarfræði 20 ára - Málþing með listrænu ívafi

Hvar: Hátíðasalur Háskóla Íslands, Aðalbygging, Sæmundargötu 2, 102 Reykjavík.
Hvenær: 21. febrúar frá kl. 13.00 til 15.00 (1-3).
Málþingið er öllum opið

Málþingið verður með óhefðbundnum hætti þar sem fléttast saman listræn innlegg og fræðilegar umræður um þátt fötlunarfræða og fötlunarmenningar í íslensku samfélagi.

Í tilefni 20 ára afmæli fötlunarfræða hafa samtök fatlaðs fólks, fatlað listafólk og fræðasamfélagið tekið höndum saman með það að marki að fagna framlagi fötlunarfræða og fatlaðs fólks til menningar og lista í íslensku samfélag.

Tungumál

Íslenska og táknmál.

Aðgengi

Við Aðalbyggingu HÍ er rampur fyrir hjólastóla. Lyfta er í húsinu. Bílastæði fyrir hreyfihamlaða eru fyrir utan anddyri hússins. Aðgengilegt salerni er á 1. hæð og á 2. hæð.

Strætó

Margir strætisvagnar stoppa við Suðurgötu og Hringbraut.

Á málþinginu verða flutt fræðileg erindi, sungið á táknmáli, fjallað um fötlunarlist og fluttir gjörningar.

Málþingsstjóri: Inga Björk Margrétar og Bjarnadóttir

Léttar veitingar að málþingi loknu.

listafólk Uppskeru

Dagskrá málþingsins:
 

Tónlistaratriði

Kolbrún Völkudóttir er táknmálsflytjandi (e. sign language performer) og útskrifaðist sem leikkona frá Kvikmyndaskóla Íslands árið 2015. Hún hefur unnið sem táknmálsflytjandi víða, til dæmis með Sinfóníuhljómsveit Íslands, leitt skoðunarferð með Maximús, sungið táknmálsóperu í Finnlandi, túlkað lögin hennar Ellýar í sýningunni Ellý og sem táknmálsflytjandi í Eurovision. Hún er sjálf döff.

Erna Hrönn Ólafsdóttir stundaði klassískt söngnám í tíu ár en sneri sér að popptónlist um tvítugt. Hún hefur verið áberandi í íslensku tónlistarlífi síðustu tvo áratugina, var m.a söngkona sveitarinnar Bermuda, Frostrós og er söngkona 80´s sveitarinnar HR.Eydís. Erna Hrönn er þekkt sem ein af bakröddum Íslands og hefur farið tvisvar í Eurovision-keppni sem slík. Samhliða söngverkefnunum, söngkennslu og barnauppeldi hefur Erna Hrönn starfað við dagskrárgerð í útvarpi og starfar nú á Bylgjunni og Létt Bylgjunni. Erna Hrönn er með BA-gráðu í táknmálsfræði, lokaverkefni hennar var um söng á táknmáli. 

Setning

Hanna Björg Sigurjónsdóttir er prófessor í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands  og formaður námsbrautar í fötlunarfræði. Hún leiddi þverfræðilega öndvegisverkefnið Fötlun fyrir tíma fötlunar og er fyrsti ritstjóri bókanna: Fötlun og menning: Íslandssagan í öðru ljósi og Understanding Disability Throughout History: Interdisciplinary Perspectives in Iceland from Settlement to 1936

Ávarp Rektor Háskóla íslands

Jón Atli Benediktsson er rektor Háskóla Íslands og prófessor í rafmagns- og tölvuverkfræði við Háskólann. Hann lauk doktorsprófi í rafmagnsverkfræði frá Purdue University í Bandaríkjunum 1990 og hefur starfað við HÍ síðan 1991. Rannsóknasvið Jóns Atla eru fjarkönnun, myndgreining, mynsturgreining, vélrænt nám, gagnabræðsla, greining lífeðlisfræðilegra merkja og merkjafræði. Hann hefur birt yfir 400 vísindagreinar á þessum sviðum og er meðal áhrifamestu vísindamanna heims skv. lista Clarivate Analytics frá 2018.

Hvernig verður ný fræðigrein til? Um upphaf og þróun fötlunarfræða við Háskóla Íslands

Rannveig Traustadóttir er prófessor emerita og forstöðumaður Rannsóknaseturs í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands. Hún hefur tekið virkan þátt í að þróa fötlunarfræði sem nýja fræðigrein hér á landi og á Norðurlöndunum. Hún var meðal stofnenda NNDR, Nordic Network on Disability Research árið 1997 og var forseti samtakanna um árabil.

Söfn eiga að standa fyrir breytingar

Sigurjón Baldur Hafsteinsson er prófessor í safnafræði við Háskóla Íslands og flytur erindið.

Fræðilegur gjörningur – Á skjön við tímann

Kristín Björnsdóttir prófessor í fötlunarfræði við Háskóla Íslands og Ólafur Snævar Aðalsteinsson listamaður, frístundaleiðbeinandi og aktivisti flytja fræðilega gjörninginn.

Tónlistaratriði 

Kolbrún Völkudótir og Erna Hrönn Ólafsdóttir flytja

Öll eiga að fá tækifæri til að mennta sig

Þórir Gunnarsson – Listapúkinn er myndlistamaður. Hann er með vinnustofu í Mosfellsbæ og starfar með Listvinnzlunni bæði sem listamaður og leiðbeinandi. Þórir er ötull baráttumaður fyrir jafnrétti til náms. Hann fékk Múrbrjót Þroskahjálpar 2021 fyrir baráttu sína fyrir aðgengi fatlaðs fólks að listnámi í Listaháskóla Íslands og sama ár var hann valinn  bæjarlistamaður Mosfellsbæjar. 

Hann hefur haldið einkasýningar og tekið þátt í samsýningum innanlands og utan. Þórir vinnur að myndlistinni alla daga. Það er hægt að fylgjast með honum á samfélagsmiðlum ,,listapukinn“ og kaupa og panta myndir hjá honum. Einnig eru upplýsingar um Þóri heimasíðu listvinnslunnar.

Fötlunarfræði og kynjafræði: Baráttusystur í fræðum og samfélagi

Þorgerður Einarsdóttir er prófessor í kynjafræði við Háskóla Íslands og flytur erindið.

Gjörningur - Bréf til afa / Dans á rósum 

Kolbrún Dögg Kristjánsdóttir er sviðshöfundur, listakona og skáld. Hún lauk BA námi í sviðslitum frá Listaháskóla Íslands 2021 og meistaranámi í ritlist frá Háskóla Íslands 2024. Kolbrún hefur framið gjörninga í anda fötlunarlistar og unnið með sviðsetningu hins persónulega í sínum verkum. Fyrsta leikverk hennar Taktu flugið, beibí var sýnt í Þjóðleikhúsinu haustið 2024 og hlaut góðar viðtökur. Listin er hreyfiafl, leið til að tengjast öðrum og miðla hinu ósýnilega. Kolbrún er allt og ekkert. Hún er gestur í þínu hjarta, hestur og tré, áfall á glugga - dropinn sem holar steininn. 

Málþingsslit

Boðið upp á léttar veitingar fyrir framan Hátíðarsalinn