Ótal tækifæri í atvinnulífi kynnt á Atvinnudögum
Tækifæri háskólanema í nýsköpun innan og utan skólans, leiðsögn um hvernig á að koma sér á framfæri í atvinnulífi og fjárfesta í framtíðinni, stefnumót við sveitarfélög sem starfsvettvang og heimsókn í hugbúnaðarfyrirtækið Tern System er meðal þess sem nemendum Háskóla Íslands býðst á Atvinnudögum skólans sem fara fram 3.-7. febrúar.
Atvinnudagar hafa verið haldnir undanfarin ár að frumkvæði Tengslatorgs og Nemendaráðgjafar HÍ í samstarfi við fleiri aðila innan og utan HÍ. Markmið Atvinnudaga er að fræða stúdenta á öllum námsstigum háskóla um starfsþróun og styðja þá til þátttöku á vinnumarkaði að loknu námi. Hver dagur í umræddri viku hefur ákveðið þema og boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá með kynningum, fyrirlestrum, heimsóknum og spjalli. Viðburðir fara ýmist fram á staðnum eða netinu.
Dagskráin hefst mánudaginn 3. febrúar með opnunarviðburði í Hátíðasal Grósku kl. 11-12 þar sem fjallað verður um það hvaða stuðning nemendur geta fengið innan HÍ til að þróa nýsköpunarhugmyndir sínar og hvaða tækifæri bjóðast til að starfa við nýsköpun. Beint í framhaldinu geta gestir svo átt samtal við Gróðurvegginn í Grósku við fulltrúa úr fjölbreyttum og spennandi sprotafyrirtækjum sem eru að leita að starfsfólki. Léttar veitingar verða í boði Vísindagarða HÍ.
Þriðjudaginn 4. febrúar er svo boðið upp á viðburðinn „Fjárfestu í framtíðinni!“ á Litla Torgi á vegum Fjármála- og atvinnulífsnefndar Stúdentaráðs HÍ. Þar fá nemendur m.a. fræðslu um hvernig þeir geta skorið sig úr fjöldanum í atvinnuleit, að hverju þarf að huga áður en fólk byrjar að fjárfesta, hvaða möguleikar eru í viðbótarlífeyrissparnaði og hvar er hægt að sækja fjármálaráðgjöf. Veitingar og drykkir verða í boði Hámu.
Miðvikudaginn 5. febrúar verða fjölbreyttir viðburðir þar sem m.a. er farið yfir gerð ferilskráa og kynningarbréfa og hvernig doktorsnemar geta hasla sér völl í atvinnulífinu, hvort sem þeir hafa hug á að starfa innan akademíu eða annars staðar í atvinnulífi. Nokkrir fleiri viðburðir af þessum toga verða í vikunni. Þá verður einnig boðið upp á fræðslu þennan dag um hvernig hægt er að æfa sig í að verða öflugur leiðtogi.
Fimmtudaginn 6. febrúar er svo komið að „Stefnumóti við sveitarfélög“ þar sem fulltrúar átta sveitarfélaga á suðvesturhorninu kynna fjölbreytta starfsemi og möguleika á atvinnu á Háskólatorgi. Þarna er um að ræða frábært tækifæri fyrir stúdenta til að eiga samtal um það hvaða tækifæri eru í boði innan sveitafélaga. Mannauðsráðgjafar frá sveitafélögunum verða á staðnum og gefa góð ráð um umsóknir og umsóknaferli.
Atvinnudögum lýkur svo föstudaginn 7. febrúar með heimsókn í hugbúnaðarfyrirtækið Tern Systems sem hefur um árabil unnið að þróun hugbúnaðar fyrir flugumferðarstjórn. Þar gefst nemendum í greinum eins og tölvunarfræði, verkfræðigreinum og raunvísindum gott tækifæri til að kynna sér framtíðaratvinnumöguleika. Athugið að fjöldi gesta er takmarkaður og því þarf að skrá sig.
Dagskrá Atvinnudaga er skipulögð í samstarfi Nemendaráðgjafar HÍ, Tengslatorgs HÍ, Fjármála- og atvinnulífsnefndar Stúdentaráðs HÍ, Miðstöðvar framhaldsnáms, Vísindagarða HÍ og KLAK - Icelandic startups.