Skip to main content
29. janúar 2025

Rannsaka geðrækt og mikilvægi hennar í skólastarfi

Rannsaka geðrækt og mikilvægi hennar í skólastarfi - á vefsíðu Háskóla Íslands

Mikilvægt er að veita geðrækt meiri athygli í skólakerfinu að mati Bergljótar Gyðu Guðmundsdóttur, dósents við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, og Jóhönnu Birnu Bjartmarsdóttur, grunnnema í menntavísindum og heilsueflingu við Háskólann í Flórída. Þær hafa nýlokið við greiningu á þúsundum rannsókna sem gerðar hafa verið á almennu námsefni um geðrækt í skólum ásamt leiðbeinanda Jóhönnu Birnu, Ragnhildi Bjarnadóttur, lektor við Háskólann í Flórída, og Brittany Kester, bókasafns- og upplýsingafræðingi við sama skóla.

Fjölmargar rannsóknir hafa verið gerðar á þessu sviði og rannsakendunum fjórum fannst mikilvægt að taka saman yfirlit um stöðu þekkingar á sviðinu. Alls fóru þær yfir um 7.500 rannsóknir sem uppfylltu ákveðin skilyrði og gefnar voru út á árunum 2013 til 2024. 

Þörf fyrir heildaryfirsýn og fjölbreytni

„Helstu niðurstöður eru að á þessu tímabili hefur orðið mikil gróska í rannsóknum á þessu sviði. Rannsóknirnar eru mjög fjölbreyttar að gæðum og stærð og flestar hafa átt sér stað í vestrænni menningu eða verið unnar af vestrænum rannsakendum, færri í lág- og miðtekjuríkjum og það vantar yfirsýn yfir þetta svið. Það er líka eitt af markmiðum samantektarinnar að fá fram einhvers konar heildarmynd af stöðu rannsókna á þessu sviði,“ segir Bergljót Gyða. Þær vilja einnig skoða hversu vel rannsakendum tekst að laga efnið að hópum hverju sinni og finnst áhugavert að skoða hversu fjölbreyttir þeir eru.

Bergljot Gyda

Bergljót Gyða Guðmundsdóttir.

Samkvæmt samantektinni benda rannsóknir ítrekað til þess að það sé mikilvægt að veita geðrækt meiri athygli í skólakerfinu. Sé innleiðing hennar markviss auki það líkurnar á farsælum þroska barna og geti fyrirbyggt margvíslega erfiðleika. Geðrækt sé ekki aðeins mikilvæg fyrir einstaklinga heldur einnig samfélagslega hagkvæm fjárfesting og vonast þær til að þessi rannsókn stuðli að frekari þróun og innleiðingu geðræktar í skólastarfi sem forvörn og til að efla geðheilbrigði í samfélaginu.

Þær vonast til að samantektarrannsóknin verði skref í átt að því að gera geðrækt að hluta af almennu skólastarfi á sama hátt og kennsla í til dæmis stærðfræði og íslensku. „Markmiðið er að efla heilsulæsi barna svo þau geti tekið upplýstar ákvarðanir, lifað heilbrigðu lífi, yfirstigið mótlæti og eflt félags- og samskiptafærni“, segir Jóhanna Birna. „Það gæti einnig verið lóð á vogarskálar aukinnar samvinnu og lausnaleitar í stærri áskorunum heimsins, eins og loftslagsvandanum og átökum milli þjóða,“ bætir Bergljót Gyða við.

Johanna

Jóhanna Birna Bjartmarsdóttir.

Persónuleg reynsla hvati að rannsókninni

Jóhanna segir að hvatinn að þessari samantektarrannsókn hafi meðal annars verið hennar eigin persónulega reynsla. „Ég nýtti mér þjónustu Barnahúss, sem sinnir málefnum barna sem hafa lent í ýmiss konar ofbeldi. Þar fá þau stuðning og sálfræðiþjónustu sem ég fékk einnig þegar ég var 10 ára. Þar lærði ég ýmis bjargráð sem hjálpuðu mér að ganga í gegnum það sem ég lenti í og ég hugsaði með mér: Af hverju er þetta ekki fyrir alla? Það lenda allir í einhverju á einhverjum tímapunkti. Af hverju erum við ekki að veita fólki úrræði til að takast á við það á uppbyggilegan hátt,“ segir Jóhanna Birna.

Gildi samantektarrannsókna í stefnumótun og þróun

Til stendur að kynna niðurstöður samantektarinnar í fræðigrein í ritrýndu tímariti á næstunni. Þar verður fjallað um helstu niðurstöður rannsóknanna sem þær fóru yfir, hvaða ályktanir megi draga af þeim varðandi geðrækt í skólum miðað við fyrirliggjandi gögn og hvaða spurningum sé enn ósvarað. Markmiðið er að samantektarrannsókn þeirra geti nýst öðrum fræðimönnum, fagfólki og stjórnvöldum sem vinna að þróun á sviði geðræktar í skólakerfinu.

Höfundur greinar: Stefanía Silfá Sigurðardóttir, BA-nemi í blaðamennsku.

Jóhanna Birna Bjartmarsdóttir og Bergljót Gyða Guðmunsdóttir.