Skip to main content
13. febrúar 2025

Ný bók um hlutverk skapandi athafna í heimi loftslagsbreytinga

Ný bók um hlutverk skapandi athafna í heimi loftslagsbreytinga - á vefsíðu Háskóla Íslands

Út er komið greinasafnið Creative Responses to Environmental Crises in Nordic Art and Literature. Bókin varpar ljósi á flókið og mikilvægt hlutverk listar, bókmennta og annarra skapandi athafna þegar kemur að því að takast á við breytta heimsmynd vegna loftslagsbreytinga, hnignunar líffræðilegs fjölbreytileika og annarra umhverfisógna.

Ritstjórar eru Auður Aðalsteinsdóttir, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands í Þingeyjarsveit, og Katarina Leppänen, prófessor í hugmyndasögu við Háskólann í Gautaborg.

Í bókina skrifa þekktir og upprennandi fræðimenn á sviði norrænnar vistrýni. Nokkrir þeirra tengjast HÍ og Listaháskóla Íslands en auk Auðar eru það Angela Snæfellsjökuls Rawlings og Sigrún Inga Hrólfsdóttir, sem báðar eru listamenn og hafa kennt við Listaháskóla Íslands, Ole Martin Sandberg, nýdoktor við Heimspekistofnun HÍ, og Ana Stanićević, doktor frá Íslensku- og menningardeild HÍ og lektor í norrænum bókmenntum við Háskólann í Helsinki. Aðrir höfundar eru Katarina Leppänen, Johan Alfredsson, Torsten Bøgh Thomsen, Georgiana Bozîntan, Camilla Brudin Borg, Xin Liu og Karoliina Lummaa.

Einnig eru í bókinni listaverk eftir Þórdísi Aðalsteinsdóttur og Hildi Hákonardóttur.

Greinasafnið er hægt að panta á 30% afslætti á vefsíðu útgefanda
Afsláttarkóði: LXFANDF30

syning

Í tengslum við útgáfu greinasafnsins verður efnt til myndlistarsýninga sem endurspegla samspil hins staðbundna, svæðisbundna og hnattræna í umhverfislist og aktívisma. Þann 16. maí 2025 verður opnuð samsýningin Creative Responses í Gallerí Specta í Kaupmannahöfn og 27. nóvember 2025 verður samsýningin Viðbragð sett upp í Ketilhúsi Listasafnsins á Akureyri. 

Kápa bókar og Auður