Stjórnun menntastofnana - Örnám


Stjórnun menntastofnana
Örnám – 30 einingar
Stutt námsleið fyrir fólk sem vill efla hæfni sína sem stjórnendur. Gerð er krafa um að fólk hafi minnst tveggja ára starfsreynslu að loknu kennsluréttindanámi. Fjarnám.
Skipulag náms
- Haust
- Þróunarstarf í menntastofnunum
- Stjórnun og forysta
- Sjálfbærnimenntun og forystaB
- Menntun og mannauðsstjórnunBE
- Vor
- Stjórnun og menntun - reynsla af vettvangi
Þróunarstarf í menntastofnunum (STM110F)
Markmið þessa námskeiðs er að þátttakendur öðlist hagnýta og fræðilega þekkingu á einkennum þróunarstarfs og þáttum í menningu menntastofnana sem stuðla að umbótum eða hindra þær. Jafnframt öðlist þeir leikni í að skipuleggja og leiða þróunarstarf, starfsþróunartækifæri og móta þróunaráætlanir. Byggt er á kenningum um faglegt lærdómssamfélag sem gerir ráð fyrir að faglegt nám og þróun stofununar séu nátengd.
Í lok námskeiðsins eiga nemendur að:
- hafa skilning á helstu hugtökum og kenningum um þróun menntastofnana og skóla sem og frístundastofnana sem lærdómssamfélags,
- geta tekið faglegar ákvarðanir um leiðir í starfs og skólaþróun sem og þróun frístundastofnana og rökstutt þær,
- geta aflað fjölbreyttra gagna um þróunarstarf og metið gildi þeirra,
- geta beitt hugtökum, kenningum, líkönum og aðferðum á raunveruleg viðfangsefni,
- geta átt frumkvæði og haft forystu um rannsóknar- og þróunarverkefni í mennta- og frístundastofnunum til að efla fagmennsku,
- geta greint leiðir til að efla kennara og starfsfólk frístundastarfi í með þátttöku alls samfélagasins.
Námskeiðið er skipulagt í lotum með fjarnámssniði, staðlotur (skyldumæting er í fyrri staðlotu) eru tvær auk kynninga á lokaverkefnum. Þess á milli fer fram lestur fræðilegs efnis, verkefnavinna og samræður þátttakenda. Auk þess býðst nemendum að taka þátt í umræðutímum um viðfangsefnin. Verkefni námskeiðsins eru hagnýt og tengjast þróunarstarfi og leiðsögn við raunverulegar aðstæður. Lögð er áhersla á samræðu og samstarf nemenda samhliða sjálfstæði í vinnubrögðum og frumkvæði auk virkni í umræðum og lestri fræðilegs efnis.
Námsmat byggir á fjölbreyttum verkefnum sem ýmist eru unnin í samvinnu við aðra eða eru einstaklingsverkefni.
Stjórnun og forysta (STM109F)
Markmið námskeiðsins er að þátttakendur fái innsýn í stjórnsýslufræði og stjórnun menntastofnana sem fræðigrein, kynni sér fjölþætt hlutverk stjórnenda, helstu hugtök og nýlegar rannsóknir og verksvið þeirra og ábyrgð.
Kenningar og hugtök um stjórnun og forystu í menntastofnunum ásamt umfjöllun um nýlegar rannsóknir eru helstu viðfangsefnin á námskeiðinu. Fjallað er um fjölþætt hlutverk stjórnenda í menntastofnunum, um forystu og kyngervi/-ferði, gildi stjórnenda og siðferði í menntastjórnun. Áhersla er lögð á forystuhlutverk stjórnenda. Jafnframt verður ráðgjafarþætti stjórnenda við kennara og aðra starfsmenn skóla sérstakur gaumur gefinn ásamt forystuhlutverki þeirra við breytinga- og þróunarstörf. Þá verða rannsóknir á hlutverkum stjórnenda í menntastofnunum kannaðar með sérstakri áherslu á nýlegar íslenskar rannsóknir.
Sjálfbærnimenntun og forysta (SFG003F)
Megintilgangur þessa námskeiðs er að veita þátttakendum tækifæri til að skilja sjálfbærni og sjálfbærnimenntun út frá sjónarhorni stofnana eða heilla kerfa. Kennslutímar og umræður á milli þeirra byggjast á upplýstri rökræðu. Unnin verða fá stærri verkefni og krafist virkrar þátttöku í umræðum, skipulagningu kennslustunda og því að leiða umræður. Námskeiðið er kennt á neti. Krafist er að lágmarki 80% mætingar í kennslustundir. Til að standast námskeiðið þarf að fá að lágmarki einkunnina 5,0 fyrir hvert verkefni námskeiðsins og uppfylla lágmarkskröfur um mætingu og þátttöku í tímum. Nánari útfærsla og upplýsingar um kennslufyrirkomulag verður á Canvas.
Dæmi um viðfangefni:
- Formleg og óformleg sjálfbærnimenntun (t.d. á vinnustöðum)
- Forysta í vinnu með sjálfbærni (t.d. í heildstæðum breytingum og þróun í skóla eða í frístundastarfi)
- Tengsl náttúrufræði og sjálfbærni (t.d. út frá kerfisbundinni nálgun eða út frá grunndvallarsýn)
- Þróun dreifbýlis og sjálfbærni
- Mótun sameiginlegra gilda (t.d. í samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja)
- Námskrárbreytingar
Menntun og mannauðsstjórnun (STM033F)
Meginmarkmiðið námskeiðsins er að þátttakendur öðlist þekkingu og hæfni á sviði mannauðsstjórnunar og verði færir um að beita þekkingu sinni í skólastarfi eða á öðrum vettvangi innan menntakerfisins. Fjallað verður um þróun mannauðsstjórnunar og lögð áhersla á að nemendur tileinki sér nýjustu kenningar um mannauðsstjórnun. Megin viðfangsefni mannauðsstjórnunar verða kynnt með áherslu á að þátttakendur skilji helstu áskoranir og mikilvægi mannauðsstjórnunar, bæði í fræðilegum og hagnýtum tilgangi.
Vinnulag
Námið er byggt upp á fyrirlestrum, umræðum, hópvinnu, lestri og verkefnavinnu. Þátttakendur vinna fjölbreytt og hagnýt verkefni sem nýtast þeim í starfi.
Stjórnun og menntun - reynsla af vettvangi (STM029F)
Markmið námskeiðs er að nemendur öðlist innsýn í dagleg störf og umhverfi skólastjórnenda og stjórnenda á vettvangi frítímans. Það gætu verið skólastjórar, aðstoðarskólastjórar og deildarstjórar i leik- grunn- og framhaldsskólum, stjórnendur frístundamiðstöðva, frístundaheimila og félagsmiðstöðva eða stjórnendur á sviði æskulýðsmála. Markmiðið er að nemendur geti fjallað um dagleg störf og umhverfi í fræðilegu samhengi, að þeir kynni sér áhrif námskráa, laga og reglugerða á störf stjórnenda og skipulag og innihald skóla- og frístundastarfs.
Námskeiðið tekur til þátta er tengjast daglegum störfum skólastjórnenda og stjórnenda á vettvangi frítímans, s.s. rekstri, starfsmannasjórnun og faglegri forystu, starfsþróun og mati á skólastarfi. Nemendur fylgja einum stjórnanda í 4-5 daga sem dreifast á 4-6 vikur. Á vettvangi safna nemendur gögnum sem nýtast við vinnslu verkefna námskeiðsins. Nánari leiðbeiningar verða veittar við upphaf námskeiðsins.
Áður en nemendur fara á vettvang hafa þeir samband við umsjónarkennar sem í samráði við nemanda finnur stjórnanda til að fylgja. Í lok námskeiðs kynna nemendu verkefni sín á málstofu.
Hafðu samband
Kennsluskrifstofa Menntavísindasviðs
1. hæð, Stakkahlíð – Enni
s. 525 5950 mvs@hi.is
Opið kl. 8.15 – 15.00 alla virka daga
Fylgstu með Menntavísindasviði

Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.