Áttatíu ára afmæli tannlæknanáms á Íslandi

Áttatíu ár eru í ár frá því að kennsla í tannlæknisfræði hófst við Háskóla Íslands en þau tímamót urðu árið 1945 í kjölfar laga sem samþykkt voru á Alþingi 4 árum áður. Í upphafi heyrði námið undir Læknadeild, þrír nemendur voru teknir inn á ári og fór kennslan fram í tveimur herbergjum á efri hæð aðalbyggingar HÍ.
Nýjar reglur um tannlæknanám tóku gildi 1947 en með þeim var námið endurskipulagt og fjórir tannlæknar útskrifaðir árlega. Námið var lengt úr fimm árum í sex árið 1958 og sama ár var sex nemum hleypt árlega á annað námsár eftir að hafa staðist samkeppnispróf í lok fyrsta námsárs. Í nóvember 1959 var deildin flutt til bráðabirgða í kjallara Landspítalans við Hringbraut.
Tannlæknadeild sinnir mikilvægu samfélagslegu hlutverki
Tannlæknadeild var stofnuð sem sérdeild innan Háskóla Íslands árið 1972. Hafin var bygging á húsnæði undir deildina árið 1980, byggingin kallaðist Tanngarður, núna Læknagarður. Tannlæknadeild var fyrsta starfsemin til að flytja í húsið í upphafi árs 1983 og hefur verið þar til húsa síðan. Á sama tíma var nemum jafnframt fjölgað í 8 á ári.
Kennsla í tannsmíði hófst í húsnæði Tannlæknadeildar árið 1988 og var þá kennt sem iðnnám sem lauk með sveinsprófi í tannsmíði. Árið 2010 varð fagið að námsgrein innan HÍ, námsbraut í tannsmíði var stofnuð innan Tannlæknadeildar og nemendur útskrifast með BS gráðu eftir þriggja ára nám.
Tannlæknadeild rekur einu opinberu tannlæknastofu landsins og veitir þar mikilvæga samfélagslega þjónustu. Einstaklingar sem standa höllum fæti einhverra hluta vegna og hafa ekki möguleika á að leita sér tannlæknaþjónustu á einkareknum stofum geta fengið meðferð á stofu deildarinnar. Einstaklingar sem eru að koma úr fíknimeðferð hafa til að mynda í mörgum tilfellum mikla meðferðarþörf. Tannlæknadeild veitir þessum einstaklingum meðferð og hjálpar þeim þannig að komast út í samfélagið aftur. Tannlæknaþjónustan er framkvæmd af nemendum Tannlæknadeildar undir umsjón kennara þeirra sem eru tannlæknar, flestir með sérfræðiþekkingu á einhverju sviði tannlæknisfræðinnar.
Mikil ásókn í nám í tannlæknisfræði og tannsmíði
Mikil aðsókn er í nám í tannlæknisfræði og hafa nemendur þurft að undirgangast samkeppnispróf til að fá að halda áfram námi. Þar sem fjöldi nema sem hóf nám á fyrsta ári var orðinn það mikill að deildin gat ekki veitt þeim verklega kennslu þá var árið 2023 bætt við inntökuprófi sameiginlegu með nemendum sem sækja um nám í læknisfræði og sjúkraþjálfun. Nemendur sem hefja nám á vorönn fyrsta árs í tannlæknisfræði hafa því bæði undirgengist inntökupróf og samkeppnispróf.
Nauðsynlegt er að laga starfsemi deildarinnar að þeim kröfum sem gerðar eru til tannheilsuteymisins í samfélaginu í dag. Á þeim rúmlega 40 árum sem deildin hefur verið í Læknagarði hefur fólksfjölgun orðið yfir 60% á Íslandi en þar sem húsnæðisþarfir Tannlæknadeildar eru sérhæfðar þá hefur ekki verið mögulegt að flytja hana til. Enn eru teknir inn átta nemendur á ári þar sem ekki er hægt að fjölga nemendum vegna skorts á húsnæði og tækjabúnaði.
Æskilegt að koma upp námsbraut í tannfræði
Þjóðin er að eldast, lífaldur hækkar og fleiri halda eigin tönnum alla ævi. Aldraðir einstaklingar í dag hafa aðrar þarfir en fyrri kynslóðir. Þetta skapar nýjar áskoranir fyrir tannheilsuteymið. Mikilvægt er að öldrunarstofnanir hafi mannauð til að aðstoða skjólstæðinga sína við tannhirðu eins og aðrar þarfir þeirra. Þörf er á að slíkar stofnanir hafi tannlæknastól þar sem tannfræðingur getur unnið í munnholi skjólstæðinga sinna. Ekki er boðið upp á nám í tannfræði við Tannlæknadeild í dag heldur þarf að stunda það nám erlendis. Með nýju húsnæði skapast tækifæri til að gera deildina nútímalegri, m.a. með því að bæta við námi í tannfræði.
Tannlæknadeild er í dag ásamt fimm öðrum deildum hluti af Heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands. Verið er að reisa nýtt sameiginlegt hús fyrir deildir Heilbrigðisvísindasviðs og er vonast til þess að Tannlæknadeild fái þar meira pláss til að hægt sé að fjölga nemendum í tannlæknisfræði og mennta tannheilsuteymi sem getur annast þarfir í samfélaginu á komandi árum.
Skortur á tannlæknum
Ákall hefur komið frá Tannlæknafélagi Íslands um að fjölga útskrifuðum tannlæknum vegna erfiðleika með mönnun á landinu. Æskilegt væri að fjölga útskrifuðum tannlæknum í 12 á ári og að bjóða upp á nám í tannfræði.
Það er því mikilvægt að vel sé hugað að aðstöðu fyrir deildina til að hægt sé að útskrifa fullmenntaða tannlækna á Íslandi. Það er bæði forsenda þess að áfram sé hægt að bjóða upp á góða tannlæknaþjónustu á landinu og að útskrifaðir tannlæknar komist í framhaldsnám erlendis þannig að sérmenntaðir tannlæknar á öllum sviðum fagsins séu starfandi á Íslandi.