Ný rannsókn varpar ljósi á tilfinningaheim Íslendingasagna

„Það er gríðarlega áhugavert að sjá hvernig þessar rannsóknir geta veitt nýjan skilning á tilfinningalífi og þeirri samfélagsgerð sem birtist í miðaldabókmenntum okkar,“ segir Brynja Þorgeirsdóttir, lektor við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, sem tekur þátt í alþjóðlegu rannsóknarverkefni þar sem hún greinir tilfinningatjáningu í kvæðum Íslendingasagna. Verkefnið sem heild miðar að því að greina samband kvæða og prósa í sögunum. Í desember 2024 var gefin út bók um efnið. Verkefnið, sem hýst er við háskólana í Cambridge og Tübingen, nýtir gagnagrunna og kerfisbundnar greiningar til að varpa nýju ljósi á þennan sagnaheim.
„Við fórum að velta því fyrir okkur hvers vegna kvæðin eru í sögunum. Meirihluti Íslendingasagna inniheldur kvæði en lesendur hafa gjarnan tilhneigingu til að sleppa því að lesa þau, líklega vegna þess að dróttkvæður háttur þeirra gerir þau framandleg og erfið aflestrar,“ segir Brynja.
Í rannsókninni voru öll kvæði Íslendingasagna sett í gagnagrunn, rúmlega 700 talsins. Voru þau greind út frá yfir 200 breytum, svo sem aðstæðum, tjáningu og samhengi. Aðferðafræðin gerir fræðimönnum kleift að svara ýmsum spurningum, til að mynda hvaða tilfinningar eru tjáðar í persónulegu rými og hverjar í almannarými.
Rannsóknirnar leiddu í ljós að tilfinningatjáning í kvæðunum er mjög háð aðstæðum. Í opinberu rými eru oftar tjáðar tilfinningar á borð við reiði, hatur og fyrirlitningu. Tjáning á þessum tilfinningum tengist oft valdabaráttu eða viðleitni persóna til að styrkja stöðu sína. Í persónulegu rými koma hins vegar fram einlægari tilfinningar líkt og sorg, ótti og depurð eða aðrar tilfinningar sem afhjúpa varnarleysi persónanna. Niðurstöðurnar endurspegla þær samfélagsreglur sem gilda innan sagnaheimsins um hvað má og hvað ekki. Tilfinningar líkt og reiði voru leyfilegar í opinberu rými en sorg og hræðsla voru eitthvað sem fólk afhjúpaði ekki opinberlega þar sem slík tjáning ógnaði stöðu þess.
„Svarar spurningum sem ekki var hægt að svara áður”
Aukin tækniþróun og notkun hennar veitir fræðimönnum aðgang að umfangsmiklum gögnum sem nú er hægt að greina og skilja viðfangsefnið á áður óþekktan hátt. Í þessari rannsókn var notast við gagnagrunna sem gera fræðimönnum kleift að rannsaka tengsl prósa og ljóða í Íslendingasögum ítarlegar en áður fyrr. Gagnagrunnurinn sem búinn var til í rannsóknarverkefninu er nú opinn almenningi.
„Stafræna byltingin hefur breytt öllu rannsóknarstarfi. Það er til fullt af öflugum gagnagrunnum sem hægt er að tengja við þennan. Þetta auðveldar allt rannsóknarstarf og svarar spurningum sem ekki var hægt að svara áður,” segir Brynja en hún leggur áherslu á hversu mikilvægar þessar rannsóknir eru til að veita nýjan skilning á tilfinningalífi og samfélagsgerðinni sem birtist í norrænum miðaldabókmenntum. Hún telur verkefnið einnig opna á möguleika fyrir frekari eigindlegar rannsóknir á sviðinu. Að hennar mati hefur stafræna byltingin gjörbreytt rannsóknarvinnu á þessu sviði, þar sem nú eru til fjölmargir öflugir gagnagrunnar sem hægt er að notast við til að greina og skilja viðfangsefnið á dýpri hátt.
Hægt að nálgast bókina ókeypis á netinu
Ítarlegri greining á viðfangsefni rannsóknarinnar er birt í greinasafni sem kom út í upphafi desembermánaðar 2024. Bókin inniheldur tíu ritgerðir sem rannsaka sérstaklega samspil kvæða og prósa í Íslendingasögum, þar sem fagurfræðin sem liggur að baki er greind út frá fjölbreyttum sjónarhornum. Brynja leggur sérstaka áherslu á tilfinningatjáningu í Íslendingasögunum, þar sem tilfinningatjáning hefur verið lykilviðfangsefni hennar undanfarin ár. Ásamt Brynju eru ritstjórar bókarinnar Stefanie Gropper, Judy Quinn og Alexander Wilson. Bókina, The Prosimetrum of the Íslendingasögur: Aesthetic and Narrative Effects, má finna í opnum aðgangi hjá forlaginu De Gruyter.
Höfundur greinar: Kári Snorrason, nemi í blaða- og fréttamennsku.