Skip to main content
27. febrúar 2025

Finndu draumanámið í HÍ á Háskóladaginn

Nemendur við Aðalbyggingu

Yfir 400 námsleiðir í grunn- og framhaldsnámi í Háskóla Íslands verða kynntar á Háskóladeginum 2025 sem fer fram laugardaginn 1. mars kl. 12-15. Þann dag býðst öllum áhugasömum að heimsækja háskólasvæðið, eiga samtöl við kennara og nemendur í einstökum námsleiðum og kynna sér ótal hliðar starfsemi HÍ og þjónustu sem stúdentum stendur til boða.

Allir sjö háskólar landsins standa saman að Háskóladeginum og hann hefur fyrir löngu unnið sér sess sem ómissandi vettvangur fyrir þau sem stefna á háskólanám. Þar gefst enda gott tækifæri til að tala við fólkið sem nemur og starfar í háskólunum um allt sem viðkemur mögulegu námi í framtíðinni. 

Námskynningar á vegum einstakra fræðasviða Háskóla Íslands fara fram í fjórum byggingum háskólans: Grósku, Öskju,Háskólatorgi og Aðalbyggingu:

  • Heilbrigðisvísindasvið: Gróska
  • Verkfræði- og náttúruvísindasvið: Askja 
  • Félagsvísindasvið: Háskólatorg, 2. hæð
  • Menntavísindasvið: Háskólatorg, 2. hæð
  • Hugvísindasvið: Aðalbygging, 2. hæð

Hægt er að sjá kort af háskólasvæðinu og skoða hvar einstakar námsleiðir eru kynntar í leitarvél á vef HÍ.

Kynningar á þjónustu HÍ og á vegum annarra háskóla

Auk fulltrúa frá einstökum námsleiðum innan Háskóla Íslands verður starfsfólk frá Nemendaráðgjöf, Alþjóðasviði, Þjónustuborði og Nemendaskrá á staðnum á 2. annarri hæð Háskólatorgs til að veita aðstoð og upplýsingar um þá fjölbreyttu þjónustu sem nemendum Háskóla Íslands stendur til boða. Einnig verða þar fulltrúar frá Stúdentaráði sem geta svarað spurningum um réttindamál stúdenta og öflugt félagslíf skólans. Jafnframt veita fulltrúar Félagsstofnunar stúdenta upplýsingar um Stúdentagarða, Leikskóla stúdenta og aðra þjónustu.

Fleiri háskólar munu kynna nám sitt á háskólasvæði HÍ. Háskólinn á Hólum verður á 2. hæð Háskólatorgs og Háskólinn á Akureyri og Landbúnaðarháskóli Íslands á Hvanneyri verða með námskynningar á 1. hæð torgsins ásamt Háskólanum á Bifröst, Listaháskóla Íslands og Háskólabrú Keilis. Þá verður Háskólinn í Reykjavík með námskynningu í eigin húsakynnum við Öskjuhlíð og LHÍ í eigin húsakynnum í Stakkahlíð.

Hopp verður með tilboð fyrir gesti Háskóladagsins. Þau sem leggja í Hoppstæði við Grósku, HÍ, HR eða LHÍ í Stakkahlíð fá ferðina frítt!

Nánari upplýsingar um Háskóladaginn í Háskóla Íslands má finna á vef HÍ.

Nemendur við Aðalbyggingu