Kennsla barna með fjölbreyttan bakgrunn - Örnám


Kennsla barna með fjölbreyttan bakgrunn
Örnám – 20 einingar
Námið er fyrst og fremst miðað að þeim sem vilja auka þekkingu sína á sviði menntunar fyrir alla, Sjónum er einkum beint að því hvernig búa má börn og ungmenni með ólíkar forsendur til náms, aðstæður til að þroskast og læra í samfélagi við aðra.
Skipulag náms
Kennslufræði íslensku sem annars máls (ÍET102F)
Um námskeiðið
Námskeiðið er ætlað einkum kennurum sem sérhæfa sig í kennslu íslensku sem annars máls, en einnig leikskólakennurum, bekkjar- og greinarkennurum, sérkennurum og stjórnendum. Námskeiði þessu er ætlað að efla þekkingu og skilning þátttakenda á íslenskunámi barna og nemenda með erlendan bakgrunn og að kynna hagnýtar leiðir og aðferðir í kennslu tals, hlustunar, lesturs, ritunar, orðaforða og málfræði. Fjallað verður um fjöltyngi, máltileinkun og tungumálanám, hæfni og starfsþróun kennara íslensku sem annars máls, áætlanagerð, námsefni, kennsluaðferðir og kenningar í kennslu íslensku sem annars máls. Öll viðfangsefni hafa það meginmarkmið að auka hæfni þátttakenda til að beita markvissum og faglegum kennsluaðferðum í kennslu íslensku sem annars máls og veita stuðning við íslensku á öllum skólastigum, en einnig að hvetja til gagnrýnnar hugsunar við beitingu kennsluaðferða og rökstyðja ákvarðanir um kennslu með tilvísun í íslenskar málstefnur og íslenskar og erlendar rannsóknir um annarsmálsnám. Námskeiðinu er enn fremur ætlað að hvetja til stöðugrar þekkingarleitar og sköpunar lærdómssamfélags á vinnustað.
Hegðun og tilfinningar barna: Áskoranir og úrræði (MAL003F)
Markmiðið með námskeiðinu er að gefa þátttakendum kost á að kynnast völdum þáttum, bæði fræðilegum og hagnýtum, sem auðvelda almennum kennurum og sérkennurum að skilja, meta og bregðast við þörfum nemenda sem eiga við hegðunar- og/eða tilfinningavanda að etja. Fjallað verður um aðferðir við skimun og mat, áhrifaþætti og algengi mismunandi hegðunar- og/eða tilfinningalegra erfiðleika, s.s. mótþróa, þunglyndis og kvíða. Einnig verður fjallað um hegðunar- og/eða tilfinningalega erfiðleika nemenda með athyglisbrest með ofvirkni (ADHD) eða röskun á einhverfurófinu. Sérstök áhersla er á að auka færni þátttakenda í að sníða skólastarf og skólasamfélag betur að þörfum nemenda með hegðunar- og/eða tilfinningalega erfiðleika og veita kennurum og skólastjórnendum ráð um hvernig unnt er að gera slíkt og fjarlægja hindranir sem útiloka og einangra nemendur með slíkan vanda.
Nemendur hafi aflað sér grunnþekkingar á helstu hugtökum og sjónarhornum þroskasálfræði eða félagsvísinda á námsferli sínum áður en þeir sækja námskeiðið. Reynsla af vinnu með börnum eða ungmennum æskileg.
Helstu efnisþættir
- Mismunandi skilgreiningar á hegðunar- og tilfinningaörðugleikum - alþjóðleg viðmið og flokkunarkerfi.
- Hegðunar- og tilfinningaörðugleikar í samfélagslegu samhengi.
- Helstu kenningar um hegðunar- og tilfinningaörðugleika barna og unglinga (conceptual models).
- Viðbrögð skólasamfélagsins; nemendasýn og skólastefna - skóli án aðgreiningar, sérdeildir eða sérskólar? Ólík sjónarhorn við að skilgreina vandann.
- Sértæk úrræði innan skólasamfélagsins og fræðilegur bakgrunnur þeirra.
- Mismunandi aðferðir við virknimat (functional behavioral assessment) til að ákvarða hvaða þættir ýta undir hegðunar- og/eða tilfinningalega erfiðleika nemenda.
- Gerð stuðningsáætlunar með margvíslegum aðferðum til að fyrirbyggja erfiða hegðun eða vanlíðan, kenna og styrkja viðeigandi hegðun og bregðast þannig við erfiðri hegðun þannig að dragi úr henni með tímanum og nemendum líði betur.
- Aðferðir til að auka félagsfærni og sjálfstæð vinnubrögð nemenda með hegðunar- og/eða tilfinningalega erfiðleika.
Vinnulag
Í staðlotum verða fyrirlestrar auk verkefnatíma. Á kennsluvefnum Canvas verða birtar hljóðglærur og kennslubréf, og þar fara fram umræður úr völdum efnisþáttum. Námskeiðið er kennt með fjarnámssniði en mætingarskylda er í staðlotur. Námsmat er að mestu leyti fólgið í hópverkefnum.
Hafðu samband
Kennsluskrifstofa Menntavísindasviðs
1. hæð, Stakkahlíð – Enni
s. 525 5950 mvs@hi.is
Opið kl. 8.15 – 15.00 alla virka daga
Fylgstu með Menntavísindasviði

Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.