Skip to main content
4. mars 2025

Yfir 30 styrkir til verkefna á sviði samfélagsvirkni

Yfir 30 styrkir til verkefna á sviði samfélagsvirkni - á vefsíðu Háskóla Íslands

Rúmlega 30 verkefni á vegum vísindafólks HÍ, sem miða að því auðga samtal við samfélagið og miðlun rannsókna, hafa fengið styrki úr sjóði skólans sem styður við virka þátttöku á því sviði. Fræðsluefni um háhyrninga, vinnusmiðjur um menntun barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn, viðburðir og fræðsla í tilefni af 50 ára afmæli námsbrautar í sjúkraþjálfun, hlaðvarp um rannsóknir í þjóðfræði og fiskifræði, sögur um íslensku og önnur mál í aldanna rás og vinnustofur tengdar örplasti og örmengunarvöldum er meðal þeirra verkefna sem hljóta styrk í ár.

Markmið sjóðsins er ekki síst að styðja við samfélagsleg áhrif skólastarfs HÍ og er styrkjunum ætlað að skapa akademísku starfsfólki aukið svigrúm til samtals við samfélagið í krafti rannsókna sinna og sérþekkingar. 

Þetta er í sjötta sinn sem slíkum styrkjum er úthlutað. Alls bárust 56 umsóknir um styrki og að þessu sinni fengu 33 verkefni styrk, eða tæplega 60% verkefna. Samanlögð úthlutunarfjárhæð var rúmlega 40 milljónir króna.

Fjölbreytt verkefni af öllum fimm fræðasviðum skólans og á vegum rannsóknasetra hans fá styrk að þessu sinni en um er að ræða vinnustofur, fræðsluefni, vefsíður, ráðstefnur og málþing, hlaðvörp, námskeið, myndbönd og heimildarmyndir, handbækur og kynningarefni af ýmsum toga sem undirstrika margháttuð tengsl vísindafólks skólans við ýmsa kima íslensks samfélags. 

Yfirlit yfir styrkt verkefni og styrkþega má finna hér.

Fólk á göngu við Árnagarð