4. mars 2025
Verkefnavaka gegn frestunaráráttu og ritstíflu

Verkefnavaka Háskóla Íslands gegn frestunaráráttu og ritstíflu verður haldin fimmtudaginn 6. mars n.k frá 17:00-22:00 í Þjóðarbókhlöðu.
Í boði verður dagskrá fyrir alla nemendur Háskóla Íslands sem eru með verkefni í smíðum, smá eða stór, námskeiðsverkefni eða lokaverkefni. Á vökunni gefst gott tækifæri til þess að vinna í verkefnum eina kvöldstund í góðum félagsskap.
Í boði verður:
- Styrkjandi leiðsögn sérfræðinga um allt það sem viðkemur verkefnaskrifum
- Ritver – aðstoð við fræðileg skrif
- Nemendaráðgjöf – hagnýt ráð varðandi skipulag og fleira tengt verkefnavinnu og vellíðan
- Bókasöfn Háskóla Íslands – aðstoð og leiðbeiningar við heimildaleit og fleira
- Vinnustofa þar sem setið er við skrif í þögn í 40 mínútur í senn
- Einstaklingsmiðuð aðstoð fyrir þau sem eru að nota heimildaskráningarforritið EndNote og eru í einhverjum vandræðum
- Ýmis örerindi sem varða heimildarvinnu og fræðileg skrif
Nánari upplýsingar á Leiðarvísum
Markmið verkefnavökunnar eru:
- að gefa nemendum færi á að vinna að verkefnum sínum utan hefðbundins vinnutíma eina kvöldstund og fá aðstoð og hvatningu,
- að vekja athygli á þeim mikla vanda í háskólum heimsins
- að vekja athygli á því að fjöldi stúdenta kvíðir því að skrifa og frestar verkefnum, oftast lokaverkefnum, og hverfa því margir frá námi þegar lokaverkefnið eitt er eftir
- að vekja athygli á að unnt er að aðstoða nemendur á öllum stigum ritunarferlisins og hjálpa þeim að komast af stað sem frestað hafa verkefnum of lengi.
Að verkefnavökunni standa Ritver og Nemendaráðgjöf Háskóla Íslands, Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn og Heilbrigðisvísindabókasafn Landspítalans og Háskóla Íslands.