Hljóta yfir einn milljarð króna til að rannsaka áhrif loftslagsbreytinga á jökla

Vísindamenn við Háskóla Íslands eru meðal þeirra sem koma að nýju evrópsku rannsóknaverkefni, ICELINK, sem miðar að því að varpa nýju ljósi á áhrif loftslagsbreytinga á hopun jökla á Norður-Atlantshafssvæðinu. Verkefnið hefur hlotið yfir milljarð króna í styrk frá Evrópusambandinu. Hlutverk vísindamanna skólans verður m.a. að safna gögnum um ísflæði og hreyfingu jökla og miðla niðurstöðum rannsóknanna á hopun jökla með myndrænum hætti til almennings og stefnumótenda.
Augu þjóða heims beinast í síauknum mæli að stöðu jökla í heiminum og til að mynda hafa Sameinuðu þjóðirnar lýst yfirstandandi ár Alþjóðaár jökla. Methiti á undanförnum áratugum hefur valdið mikilli hörfun jökla og ísbreiða á Íslandi og Grænlandi. Hópur evrópskra rannsóknastofnana hefur einsett sér að ákvarða hve hröð og mikil þessi rýrnun er og verður í framtíðinni, áhrif þessarar hörfunar á staðbundið loftslag og vistkerfi og hvað samfélögin á þessu svæði geta gert til að aðlagast.
Vísindamenn frá 11 stofnunum í 7 löndum víðs vegar um Evrópu munu samþætta niðurstöður háþróaðra loftslags- og ísflæðilíkana við afkomumælingar og gervihnattagögn til að auka skilning okkar á áhrifum loftslagsbreytinga á jöklana á Norður-Atlantshafssvæðinu. Þetta er flókið, þverfaglegt viðfangsefni sem þarfnast alþjóðlegs samstarfs til að ná árangri.
Yfirlitsmynd yfir svæðið sem ICELINK-verkefnið beinir sjónum sínum að og sem varpar ljósi á þau verkefni sem rannsóknarhópurinn fæst við (mynd eftir Rán Flygengring).
Verkefninu var hleypt af stokkunum í febrúar með rásfundi í Danmörku þar sem spennandi umræður fóru fram um metnaðarfull markmið verkefnisins. „Það var frábært að sjá loksins alla samstarfsaðila verkefnisins komna saman, tilbúna til samstarfs að þessu mikilvæga verkefni, en undirbúningur hefur staðið í nokkur ár,“ segir Guðfinna Aðalgeirsdóttir, prófessor við Jarðvísindadeild og leiðtogi ICELINK við Háskóla Íslands, um fundinn.
Vísindamenn við Háskóla Íslands, þar á meðal Eyjólfur Magnússon, munu safna nýjum gögnum um ísflæði og landslagið undir jöklunum. Þessar upplýsingar verða notaðar í endurbætt reiknilíkön til að spá fyrir um hvernig jöklarnir muni hegða sér í framtíðinni. „ICELINK skapar frábært tækifæri til að afla nýrra gagna til grundavallar bætts skilnings á hreyfingu jökla,“ bætir hann við.
Gera rannsóknirnar sýnilegar og aðgengilegar
Auk þess að leggja sitt af mörkum til sameiginlegra rannsóknaverkefna ICELINK leiðir Háskóli Íslands einnig metnaðarfulla samskipta- og kynningaráætlun verkefnisins sem miðar að því að koma spennandi vísindaafurðum ICELINK til sem flestra áheyrenda, þar á meðal stefnumótenda, almennings og annarra vísindamanna úti um allan heim.
Í teymi ICELINK við HÍ er Kieran Baxter, sérfræðingur í myndrænni framsetningu og kvikmyndagerðarmaður, en hann mun skrásetja starfið innan verkefnisins, bæði á rannsóknarstofum og á vettvangi, þannig að hægt sé að deila því með heiminum öllum. Kieran lýsir aðkomu sinni að verkefninu þannig: „Við höfum ekki aðeins tækifæri til að afhjúpa nýja þekkingu um jöklana heldur einnig gera rannsóknirnar bæði sýnilegri og aðgengilegri. Myndræn framsetning niðurstaðna mun auka sýnileika ICELINK-verkefnisins og verður þeim deilt með hagsmunaaðilum, eins og öðrum vísindamönnum, stefnumótendum og almenningi, og styðja við aðlögunaráætlanir stjórnvalda.“
Samsettar loftmyndir af Fláajökli, sem sýna jökulinn frá sama sjónarhorni með 31 árs millibili. Þarna sést hversu mikil hörfun af völdum aukins hitastigs hefur verið á þessu tímabili. Birt með leyfi Landmælinga/Kieran Baxter.
HÍ og Veðurstofan koma að verkefninu hér á landi
ICELINK hefur hlotið fjárveitingu upp á um 7,5 milljónir evra, jafnvirði rúmlega milljarðs króna, á næstu fjórum árum frá Horizon Europe áætlun ESB en það er verulegur hluti af framlagi Háskóla Íslands til Pillar II innan áætlunarinnar, Global Challenges og European Industrial Competitiveness.
Í ICELINK-hópnum koma saman háskólar, veðurstofur og rannsóknastofnanir frá Íslandi, Danmörku, Grænlandi, Austurríki, Belgíu, Þýskalandi og Spáni. Þetta eru Háskóli Íslands, Kaupmannahafnarháskóli, Danmarks Tekniske Universitet (DTU), Greenland Survey (ASIAQ), Háskólinn í Liège, Jarðfræðistofnun Danmerkur og Grænlands (GEUS), Veðurstofa Íslands, Veðurstofa Danmerkur (DMI), Environmental Earth Observation Information Technology (ENVEO) GmbH, Alfred Wegener Institute (AWI) og Basque Centre for Climate Change (BC3).
Frekari upplýsingar um ICELINK verkefnið er hægt að fá með því að hafa samband við samskiptastjóra verkefnisins, Timothy James (tdj@hi.is), á vefsíðu þess og á opinberu gagnasafni og vefgátt ESB, CORDIS.