Skip to main content
12. mars 2025

Upplifir þú liti þegar þú horfir á bókstafi?

Upplifir þú liti þegar þú horfir á bókstafi? - á vefsíðu Háskóla Íslands

Vísindamenn við sálfræðideildir Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri og Háskólans í Reykjavík vinna nú að rannsókn á tengslum lita við bókstafi á Íslandi. Verkefnið er hluti alþjóðlegs verkefnis þar sem markmiðið er að skilja áhrif tungumála á tengingar bókstafa og lita. Allir eldri en 18 ára geta tekið þátt í rannsókninni, sem fer fram á netinu.

Við sjáum með augunum, heyrum með eyrunum, snertum með fingrunum og finnum lykt með nefinu. Eða hvað? Hjá minnihluta fólks virðist skilningarvitum slá saman. Sumir finna lykt af tónum – kannski er fiskilykt af „afmælislaginu“? Aðrir sjá mánuði í rými – ef til vill er mars ofarlega til vinstri? Enn aðrir sjá bókstafi í litum sem ekki samsvara endilega litnum sem þeir raunverulega eru prentaðir með.

Samskynjun algengari en áður var talið

Þegar fyrirbæri vekja slíka ósjálfráða upplifun kallast það samskynjun. Áður fyrr var talið að samskynjun væri afar sjaldgæf en rannsóknir undanfarna tvo áratugi hafa leitt í ljós að hún er nokkuð algeng, jafnvel svo að einn til fjórir af hverjum hundrað upplifi eina eða fleiri tegundir samskynjunar. Margir gera sér þó ef til vill enga grein fyrir því að upplifun þeirra á heiminum sé óvenjuleg, enda hefur fólk alla jafna engan aðgang að hugarstarfi annarra en sjálfs sín. Því er algengt að fólk uppgötvi ekki eigin samskynjanir fyrr en á fullorðinsárum þegar það ber saman lýsingar á eigin upplifun við upplifanir annarra. 

Orsakir samskynjunar eru óþekktar. Helstu tilgátur eru þó tvær. Í fyrsta lagi getur verið að fleiri eða sterkari tengingar séu á milli ólíkra heilasvæða hjá fólki sem upplifir samskynjun. Til að mynda kann að vera að hjá þeim sem upplifa bókstafi í litum séu sterkari tengingar á milli heilasvæða sem sjá um orðaskynjun og litaskynjun. Í öðru lagi kann að vera að fólk með samskynjun sé með minni hömlun á taugatengingum. 

Þó að samskynjanir virðist algerlega ósjálfráðar, og tilhneiging til þeirra líklega meðfædd, getur umhverfið haft sterk áhrif á hvaða tengingar myndast á milli samskynjunarvakans (til dæmis bókstafs) og samskynjunarinnar (til dæmis litar). Þannig hefur komið í ljós að nokkuð hátt hlutfall þeirra sem upplifa samskynjanir og voru börn á þeim tíma sem Fisher-Price seldu litríka bókstafi sem prýddu ísskápa á þúsundum heimila, upplifa samskynjanir í takti við liti bókstafanna. Þannig hefur umhverfið mótað samskynjanir þessara barna þótt það hafi ekki verið orsök þess að þau upplifi samskynjanir yfir höfuð. 

Þau Árni Gunnar Ásgeirsson, dósent við Háskólann á Akureyri, Heiða María Sigurðardóttir, prófessor við Háskóla Íslansds, og Inga María Ólafsdóttir, lektor við Háskólann í Reykjavík, vinna að rannsókn með dr. Nicholas Root, vísindamanni við Amsterdam-háskóla, þar sem markmiðið er að safna upplýsingum um þessi tengsl lita við bókstafi á Íslandi. Allir eldri en 18 ára geta tekið þátt í rannsókninni, sem fer fram á netinu.

Áhugasamir um þátttöku skulu hafa samband við Hrafnhildi Ólafsdóttur (hro30@hi.is) eða Huldu Björk Gunnarsdóttur (hbg55@hi.is) til að fá nánari upplýsingar. Þær eru að vinna lokaverkefni sitt í grunnnámi við Sálfræðideild HÍ upp úr gögnum íslenskumælandi þátttakenda. 

Heiða María og Árni Gunnar sögðu frá rannsókninni á Bylgjunni

Myndir