Skip to main content

Þing í Skaftafellssýslu - gersemar og glópagull

Þing í Skaftafellssýslu - gersemar og glópagull - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
2. apríl 2025 12:00 til 13:00
Hvar 

Oddi

Stofa 202

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Kristborg Þórsdóttir flytur erindið „Þing í Skaftafellssýslu - gersemar og glópagull" í Fyrirlestraröð Félags fornleifafræðinga.

Haldið í stofu 202 í Odda, miðvikudaginn 2. apríl kl. 12:00-13:00. Einnig verður hægt að fylgjast með í streymi hér. Verið öll velkomin. 

Um fyrirlesturinn

Við heildarskráningu minja í Skaftártungu í Vestur-Skaftafellssýslu sem fram fór á tímabilinu 2013-2018 fundust vísbendingar um þingstaði á tveimur stöðum, annars vegar í Haugatungum í landi Flögu og hins vegar við Þinggil í landi Grafar. Um fyrrnefnda staðinn er fjallað í Frásögum um fornaldarleifar frá 1817 og líkum leitt að því að um vorþingstað Skaftafellsþings sé að ræða. Engar slíkar sagnir voru um meintar minjar við Þinggil en þar gaf örnefnið vísbendingu um hlutverk þeirra.

Ekki er vitað hvar vorþingstaður var í Skaftafellsþingi en gengið hefur verið út frá því að hann hafi verið í landi Skaftafells og þaðan sé nafnið fengið. Engar heimildir eða vitneskja hefur varðveist um nákvæmari staðsetningu og þar eru engar minjar þekktar sem benda til þingstaðar. Friðlýstar þingminjar eru hins vegar á Leiðvelli í Meðallandi en sú jörð tilheyrði Skaftártungu fyrir Skaftárelda 1783. Nafn jarðarinnar bendir til þess að þar hafi verið háð leiðaþing á þjóðveldisöld.

Í erindinu verður greint frá aðdraganda og niðurstöðum rannsóknar á meintum þingstöðum í Skaftártungu og vettvangsathugana á Leiðvelli sem fram fóru sumarið 2023. 

Loftmynd af Haugatungum.

Þing í Skaftafellssýslu - gersemar og glópagull