Skip to main content
8. apríl 2025

Umferðarsálfræðin mikilvægur hluti námsins

Sunneva Rut Valgeirsdóttir

Sunneva Rut Valgeirsdóttir starfar hjá Neyðarlínunni 112 sem neyðarvörður og er líka nýútskrifuð sem skyndihjálparleiðbeinandi hjá Rauða krossinum. Við ræddum við hana um lífið, áhuga hennar á öllu með mótor og ökukennaranámið sem hún stundar nú hjá Endurmenntun HÍ.

Sunneva er fædd á Íslandi og bjó hér fyrstu átta ár lífs síns. Hún var annars alin upp í Noregi og flutti svo heim árið 2022. Áhugi Sunnevu á ökukennslu kviknaði þegar hún var ung og nýbúin með bílpróf. Hún hefur alla tíð verið með gríðarlegan áhuga á bílum og öllu með mótor.

„Fyrsti ökukennarinn minn var til fyrirmyndar sem kennari og hvatti mig alltaf til að fylgja draumum mínum. Þegar ég bætti við mig meiraprófi og fleiru þá fékk ég að kynnast nýjum kennara sem gaf mér enn eina ástæðu til þess að sækja í þetta nám og þetta starf. Ég hugsaði nefnilega oft þegar ég lærði hjá honum: „Ég vil vera eins og þú/ég vil gera eins og þú; veita ökunemendum þessa ró og gott umhverfi, bæta sjálfstraust þeirra og miðla þessum mikilvægu upplýsingum og kennslu á þægilegan og öruggan hátt.“

Leigubílstjóri og ýmislegt fleira í Noregi

Sunneva hefur unnið ýmis störf í gegnum árin og sankað að sér fjölbreyttri reynslu. „Til dæmis var ég leigubílstjóri í Noregi í fimm ár og vann einnig við flutningaþjónustu um allan Noreg. Einnig hef ég unnið á hjúkrunarheimili og læknavakt/bráðamóttöku og að sjálfsögðu unnið hjá Neyðarlínunni við að svara neyðarsímtölum og aðstoða fólk í neyð.“

Ökumenn oft fyrstir á vettvang slysa

Sunneva segist frá náttúrunnar hendi hafa mikinn áhuga á öryggi og skyndihjálp. „Vinnandi á þessum vinnustað, Neyðarlínunni 112, sé ég með eigin augum alla daga hversu mikilvægt það er að við séum með örugga ökumenn í samfélaginu og að við kennum vel öryggi og leggjum áherslu á skyndihjálp.“

Ökumenn séu oft fyrstir á vettvang og þurfi að veita fyrstu hjálp sem starfsfólk Neyðarlínunnar leiðbeinir í gegnum símann. „Það er ótrúlega dýrmætt þegar innhringjandi er nýlega búinn með skyndihjálparnámskeið og það skiptir gríðarlegu máli á vettvangi þegar það kemur að því að hlúa að slösuðum eða veita einhvers konar fyrstu hjálp.“

Sunneva áréttar í framhaldinu að sjálf muni hún leggja mikla áherslu á mikilvægi skyndihjálparnámskeiða sem kennari í ökunámi og viðhalda þeirri þekkingu. „Og ég mun kenna mínum nemendum hversu mikilvægt það er að vera til fyrirmyndar í umferðinni.“

„Pabbi gamli hvatti mig til þess að sækja um“

Aðspurð segist Sunneva hafa fyrst heyrt um ökukennaranámið hjá ökukennurum sínum. „Pabbi gamli hvatti mig til þess að sækja um og fá kennsluréttindi, vitandi hversu mikil bílastelpa ég er. Það var hann sem sendi á mig hlekk þegar loksins kom auglýsing um að það mætti sækja um í náminu.“

Sunneva segir að henni líki námið vel en eitt af það skemmtilegasta við það sé nemendahópurinn. Þar sé saman komið fólk af öllum mögulegum sviðum samfélagsins sem öll hafi áhuga á því að bæta ökukennslu og bætast í hóp flottra ökukennara hér á landi. „Þó ég segi sjálf frá,“ segir hún og hlær, þótt undirtóninn sé ögn alvarlegri: „Mér finnst bara svo mikilvægt að við sem verðandi ökukennarar séum til fyrirmyndar fyrir nemendur og tökum á okkur þessa mikilvægu ábyrgð að kenna þeim að verða góðir ökumenn og kenna þeim einnig að taka ábyrgð.“

Mikilvægt að mæta fólki þar sem það er

Sunneva bendir einnig á að samfélagið á Íslandi sé orðið fjölbreytt, fólk glími við ýmsa hluti í lífinu og því aldrei verið eins mikilvægt að mæta fólki þar sem það er hverju sinni. „Þar kemur til dæmis umferðarsálfræðin sterk inn í náminu og hjálpar okkur að bæta okkur sem einstaklingar og gera okkur betur kleift að geta tekið á móti hverjum sem er í kennslu. Einnig finnst mér öll verkleg kennsla sem við náum að tileinka okkur skemmtilega og ég væri til í að sjá enn meira af henni. Það sem hefur komið mér mest á óvart er að ég er yngst í hópnum. Ég er ekki það ung!“ segir hún og hlær.

Sunneva segist að lokum hlakka mikið til þess að nýta námið vel sem stoltur ökukennari í framtíðinni.

Allar nánari upplýsingar og umsóknir í ökukennaranám má finna hér.

Sunneva Rut Valgeirsdóttir