Skip to main content
16. apríl 2025

Vigdís tók við bók með leikritaþýðingum sínum á 95 ára afmælisdaginn

Vigdís tók við bók með leikritaþýðingum sínum á 95 ára afmælisdaginn - á vefsíðu Háskóla Íslands

Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, tók við nýrri útgáfu af þremur leikritaþýðingum eftir hana á viðburði sem haldinn var í Veröld – húsi Vigdísar á 95 ára afmælisdegi hennar, 15. apríl. 

Bókin ber heitið Frönsk framúrstefna: Sartre, Genet, Tardieu og kemur út á vegum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og Háskólaútgáfunnar. Í henni er að finna þýðingar Vigdísar á leikritunum Læstar dyr eftir Jean-Paul Sartre, Vinnukonurnar eftir Jean Genet og Ég er kominn til að fá upplýsingar eftir Jean Tardieu. Verkin þrjú þýddi Vigdís úr frönsku á árunum 1961 til 1966, tvö fyrri leikritin fyrir leikhópinn Grímu en það þriðja fyrir Leikfélag Reykjavíkur. 

Kapa bokarinnar

Ritstjórar útgáfunnar eru Guðrún Kristinsdóttir, Irma Erlingsdóttir og Ásdís R. Magnúsdóttir. Í ítarlegum inngangi fjalla þær um verkin þrjú og frönsku framúrstefnuna í íslensku leikhúsi. Bókin er gefin út með styrk frá Styrktarsjóði Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og Miðstöð íslenskra bókmennta.
 

Ritstjórar útgáfunnar eru Guðrún Kristinsdóttir, Irma Erlingsdóttir og Ásdís R. Magnúsdóttir. Hér eru þær ásamt Vigdísi Finnbogadóttur eftir athöfnina í Veröld.

Það var Berglind Ásgeirsdóttir, stjórnarmaður í Styrktarsjóði Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, sem afhenti Vigdísi og Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, fyrstu eintökin af bókinni við hátíðlega athöfn í Veröld á 95 ára afmælisdegi Vigdísar að viðstöddum góðum gestum. Við athöfnina fluttu Halla, Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, og Ásdís Rósa Magnúsdóttir ávörp auk þess sem þær Guðrún Kristinsdóttir og Irma Erlingsdóttir kynntu verkið. Þá lásu feðgarnir og leikararnir Stefán Jónsson og Haraldur Stefánsson úr leikritinu Læstar dyr eftir Jean-Paul Sartre. 

Samhliða afmælisviðburðinum í Veröld var boðið upp á leiðsögn um sýninguna „Ljáðu mér vængi. Ævi og áhrif Vigdísar Finnbogadóttur“ í Loftskeytastöðinni og um leið opnuð ný sýning á neðri hæð Loftskeytastöðvarinnar sem ber heitið „Skrúði Vigdísar“ og hefur að geyma hátíðarklæðnað forsetans fyrrverandi. Aðgangur að sýningunum er ókeypis í 16. og 17. apríl.

Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, tekur við fyrsta eintakinu af leikritaþýðingum sínum úr hendi Berglindar Ásgeirsdóttur.
Kápa bókarinnar nýju. MYND/Gunnar Sverrisson