Veðurfræði aldrei verið jafn spennandi

Arna Jónsdóttir er nemandi í leiðsögunámi og útskrifast í júní. Námið er örnám sem Endurmenntun Háskóla Íslands býður upp á í samstarfi við Líf- og umhverfivísindadeild Háskóla Íslands. Með 30 ECTS einingum veitir námið faglega og yfirgripsmikla þjálfun í leiðsögn um Ísland. Arna hefur fjölbreytta reynslu úr námi og starfi sem tengist málnotkun, fræðslu og samskiptum við fólk, og sér fyrir sér spennandi framtíðarhorfur í leiðsögu. Hér segir hún frá upplifun sinni af náminu og framtíðarsýn sinni.
Arna fæddist í Reykjavík og ólst upp í Árbænum, þar sem hún bjó um tuttugu ára skeið. Sem barn bjuggu þau fjölskylda hennar um stundarsakir í Bretlandi, nánar til tekið í Canterbury, þar sem hún gekk í breskan grunnskóla. „Árbærinn er í hjarta mér og aldrei að vita nema ég flytji þangað aftur seinna á ævinni,“ segir hún með brosi.
Sterkur grunnur í tungumálum og fræðslu
Arna hefur áralanga reynslu af kennslu, fræðslu og þýðingum á tungumálum. Hún lauk BA-gráðu í íslensku og jók við menntun sína með kennsluréttindum og MA-gráðu í blaða- og fréttamennsku. „Ég kenni núna íslensku í Háskólagrunni HR en hef einnig starfað lengi á skrifstofu Alþingis við móttöku gesta, upplýsingagjöf, ræðulestur og yfirlestur á þingskjölum," segir Arna.
Ferðaþekking hennar er sömuleiðis mikil, því hún hefur starfað sem fararstjóri erlendis, þar á meðal á Spáni, í Hollandi og Króatíu. „Við kennslu hef ég svo alltaf verið heilluð af því að fræða og segja sögur.“
Löngun til að kynnast landi og náttúru betur
Hugmyndin um að sækja um í leiðsögunámi kviknaði vegna áhuga Örnu á sögu og náttúru Íslands. „Ég óskaði mér dýpri skilnings á landinu og vildi fá tækifæri til að sækja mér meiri þekkingu og deila henni með öðrum." Þannig var markmið hennar einnig að auka þekkingu sína á landafræði, jarðfræði og framkomu í fræðslu.
Sterkustu minningarnar frá náminu
Aðspurð um þær kennslustundir sem hafi heillað hana mest, nefnir hún veðurfræðina með Elínu Björk Jónasdóttur. „Mér hefur aldrei þótt veðurfræði jafn spennandi!“ segir Arna. „Einnig voru fyrirlestrar Sævars Helga Bragasonar um stjörnufræði og norðurljós mjög áhugaverðir.“
Leiðsögn og kennsla hönd í hönd
Arna sér fyrir sér bjarta framtíð þar sem hún samræmir kennslu og leiðsögn. „Kennslureynslan gefur mér styrk til að tala við hópa og skipuleggja efni en leiðsögnin veitir nánari tengingu við land og náttúru.“
Að endingu telur Arna Ísland hafa mikla möguleika sem ferðamannastaður. „Mér finnst mikilvægt að leggja áherslu á samspil menningar og náttúru, til dæmis með þjóðsögum á gönguleiðum og hagnýtingu nútímatækni, svo sem sýndarveruleika, til að sýna jarðfræðileg undur samtímis því að ferðamenn upplifa náttúrufegurð, áhrif loftslagsbreytinga á jökla og slíkt. Það gæti auðgað upplifun ferðamanna og aukið skilning þeirra á landinu."