Hver er Jón Atli Benediktsson?
Eins og kunnugt er var Jón Atli Benediktsson, aðstoðarrektor vísinda og kennslu og prófessor í rafmagns- og tölvuverkfræði, kjörinn rektor Háskóla Íslands í almennri kosningu starfsmanna og stúdenta við skólann mánudaginn 20. apríl. Hann verður sá 29. í röðinni sem gegnir embættinu.
Með kosningunni hefur Jón Atli formlega hlotið tilnefningu í embættið en samkvæmt reglum Háskóla Íslands ber háskólaráði, eftir rektorskjör, að tilnefna til menntamálaráðherra þann umsækjanda um embætti rektors sem fengið hefur meirihluta greiddra atkvæða. Ráðherra skipar síðan rektor sem tekur við embætti 1. júlí og er skipunartíminn fimm ár.
En hver er hinn tilvonandi rektor þessa elsta og stærsta háskóla landsins?
Jón Atli Benediktsson er fæddur í Reykjavík 19. maí 1960, næstelstur í hópi sex systkina. Hann lauk prófi í rafmagnsverkfræði frá Háskóla Íslands 1984 og ári síðar hóf hann nám við Purdue University í Indiana í Bandaríkjunum og lauk þaðan doktorsprófi í rafmagnsverkfræði 1990.
Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson
Jón Atli hóf störf sem lektor í rafmagns- og tölvuverkfræði við Háskóla Íslands árið 1991 en árið 1994 fékk Jón Atli framgang í starf dósents og framgang í starf prófessors árið 1996. Hann hefur verið aðstoðarrektor vísinda og kennslu við Háskóla Íslands frá árinu 2009. Af öðrum störfum innan háskólans má nefna að Jón Atli var formaður vísindanefndar háskólaráðs á árunum 1999–2005 og formaður gæðanefndar háskólaráðs 2006-2015. Hann hefur enn fremur verið forstöðumaður Miðstöðvar framhaldsnáms frá 2009.
Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Jón Atli er einn afkastamesti vísindamaður háskólans. Hann er höfundur meira en 300 fræðigreina og bókarkafla. Þá hefur Jón Atli fengið margvíslegar viðurkenningar fyrir rannsóknir sínar, bæði innan lands og utan. Enn fremur hefur hann verið virkur í nýsköpun og stofnaði m.a. með Einari Stefánssyni, prófessor í augnlækningum og fleirum, sprotafyrirtækið Oxymap sem þróað hefur tæki og hugbúnað til greiningar augnsjúkdóma með stafrænni myndgreiningu. Jón Atli er jafnframt höfundur þriggja einkaleyfa.
Jón Atli hefur verið gestaprófessor við háskóla á Ítalíu, Englandi og Kína auk þess að vera gistivísindamaður við Joint Research Centre, Ispra á Ítalíu. Hann var enn fremur forseti IEEE Geoscience and Remote Sensing Society á árunum 2011 og 2012 og hefur setið í stjórn félagsins frá 2000.
Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson
Jón Atli er kvæntur Stefaníu Óskarsdóttur, stjórnmálafræðingi og dósent við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Þau eiga tvo syni, Benedikt Atla, nemanda í rafmagns- og tölvuverkfræði við Háskóla Íslands, og Friðrik, nemanda í Melaskóla.