Skip to main content
4. maí 2015

Ísland - Suðupottur fuglaflensu

""

„Í kjölfar faraldurs á fuglaflensu af stofni H5N1 fyrir nokkrum árum hefur mikil umræða átt sér stað um flensur í fuglum um allan heim. Helstu áhyggjur manna snúa að hættu vegna dauða á alifuglum og svo þeirri ógn sem getur stafað af því ef banvænar veirur breyta sér og smitast á milli manna,“ segir Gunnar Þór Hallgrímsson, dósent í dýrafræði við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Hann mun fjalla um rannsóknir á veirum í farfuglum sem koma hingað til lands í erindi fyrirlestraraðarinnar Vísindi á mannamáli í Háskóla Íslands. 

Gunnar Þór hefur stundað rannsóknir á þessu sviði undanfarin ár og hafa niðurstöður úr þeim vakið athygli víða um heim. Erindið, sem opið er öllum, verður í Hátíðasal Háskóla Íslands þriðjudaginn 5. maí kl. 12.10. 

Í erindinu mun Gunnar Þór fjalla um rannsóknir sínar og samstarfsfélaga sem á síðustu árum hafa skoðað tíðni og gerðir fuglaflensuveira í fuglum á Íslandi. Í fuglunum fundust margar gerðir veira sem eiga bæði uppruna til Evrópu og Ameríku. Rannsóknirnar leiddu meðal annars í ljós að Ísland er eins konar suðupottur fyrir fuglaflensur frá mismunandi heimssvæðum þar sem þær blandast og mynda nýjar veirur. 

„Í erindinu fjalla ég um hvaða fuglategundir eru líklegastar til að flytja fuglaflensuveirur til og frá Íslandi með því að rýna aðeins í lífshætti og farmynstur fuglanna. Þá verður rætt um hvaða áhrif flensur hafa á villta fugla og hvaða veirur það eru sem okkur gæti stafað ógn af,“ segir Gunnar Þór.

Þó að orðið fuglaflensa og H5N1 séu gjarnan nefnd sem eitt og sama fyrirbærið í almennri umræðu þá er reyndin sú að fjölmargar gerðir fuglaflensuveira finnast bæði í villtum fuglum og alifuglum. Sumar þeirra eru hættulegar fuglunum en aðrar eru vægar og fuglar sem sýkjast sýna lítil sem engin merki um flensu. 

Gunnar Þór segir að rannsóknir á vægum fuglaflensum henti vel til að skoða hvernig fuglar beri hina ýmsu flensustofna á milli svæða og geti því verið líkan til að spá fyrir um hvernig hættulegar flensur geti dreifst, komi þær upp.  

Stökkpallur fyrir fuglaflensuveirur

Aðspurður um hvaða máli þessar rannsóknir skipti fyrir hugsanlega smithættu gagnvart fólki svarar Gunnar Þór því þannig að til að vita hvort fólki stafi hætta af flensum í íslenskum fuglum þurfi við fyrst að vita hvaða flensur finnist í íslenskum fuglum, hvaðan þær berist og með hvaða tegundum. „Eins og staðan er í dag erum við skammt á veg komin með að fylla upp það þekkingargap. Hins vegar ber að undirstrika að langflestar fuglaflensur smitast eingöngu á milli fugla.“

Gunnar Þór segir ljóst að Ísland geti virkað eins og stökkpallur fyrir fuglaflensur á milli Evrasíu og Ameríku. Í rannsóknunum fundust m.a. vægar gerðir af fuglaflensuveirunum H5N1, í vaðfugli, og H5N2, í máfi. „Ísland er þó ekki í sérstakri hættu fyrir svæsnar fuglaflensuveirur en vegna landfræðilegrar staðsetningar landsins og þess mikla fjölda fugla sem fer um Ísland þá er mikilvægt að skilja hvernig flensur gætu notað landið sem stökkpall með fuglum á milli Evrópu og Ameríku,“ segir Gunnar Þór. 

Afkastamikill vísindamaður

Gunnar Þór Hallgrímsson er mjög afkastamikill ungur vísindamaður. Hann hefur verið verðlaunaður fyrir rannsóknir sínar sem hafa vakið athygli víða um heim. Gunnar Þór hefur verið dósent í dýrafræði við Háskóla Íslands frá árinu 2014.

Gunnar Þór lauk doktorsprófi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 2011 en ritgerð hans bar heitið Ecological constraints on two species of large gulls. Hann brautskráðist með BS-gráðu í líffræði frá Háskóla Íslands árið 2004.

Gunnar Þór var forstöðumaður Náttúrustofu Suðvesturlands frá 2012 til 2014 og hafði þá umsjón með rekstri stofunnar, stefnumótun hennar og rannsóknum. Hann var á undan sérfræðingur á Náttúrustofu Reykjaness frá árinu 2005 til  2012. Þar vann hann margvísleg verkefni, aðallega tengdum rannsóknum á fuglum og refum.

„Ísland er þó ekki í sérstakri hættu fyrir svæsnar fuglaflensuveirur en vegna landfræðilegrar staðsetningar landsins og þess mikla fjölda fugla sem fer um Ísland þá er mikilvægt að skilja hvernig flensur gætu notað landið sem stökkpall með fuglum á milli Evrópu og Ameríku,“ segir Gunnar Þór Hallgrímsson, dósent við Líf- og umhverfisvísindadeild. Hann heldur erindi um rannsóknir sínar í Hátíðasal Háskóla Íslands þriðjudaginn 5. maí kl. 12.10.
„Ísland er þó ekki í sérstakri hættu fyrir svæsnar fuglaflensuveirur en vegna landfræðilegrar staðsetningar landsins og þess mikla fjölda fugla sem fer um Ísland þá er mikilvægt að skilja hvernig flensur gætu notað landið sem stökkpall með fuglum á milli Evrópu og Ameríku,“ segir Gunnar Þór Hallgrímsson, dósent við Líf- og umhverfisvísindadeild. Hann heldur erindi um rannsóknir sínar í Hátíðasal Háskóla Íslands þriðjudaginn 5. maí kl. 12.10.