ReyVarstígur – frá Reykjavík til Varsjár: á slóðum pólsku upplýsingarinnar er fjölþætt og þverfaglegt verkefni þar sem námi og menningu er fléttað saman bæði á Íslandi og í Póllandi á haustmisseri 2025. Um er að ræða samstarfsverkefni Háskólans í Varsjá og Háskóla Íslands sem styrkt er af NAWA (The National Agency for Academic Exchange) í Póllandi. Opið öllum nemendum HÍ Opnað fyrir umsóknir: 17. Mars 2025. Umsóknarfrestur: 16. maí 2025. Tilkynnt um val á þátttakendum úr hópi umsækjenda: 30. maí 2025. Hverjir geta tekið þátt? Verkefnið er opið öllum skráðum nemendum í HÍ, óháð námsleið og námsstigi (bæði grunnnám og framhaldsnám). Þeir nemendur sem taka þátt í verkefninu og ljúka öllum þáttum þess fá það metið til 5 ECTS eininga. Forgang fá þeir nemendur sem: eru byrjendur í pólsku og/eða ekki hafa pólsku að móðurmáli, hafa áhuga á sögu og menningu Póllands, vilja auka þekkingu sína á upplýsingarstefnunni í Evrópu. Um er að ræða alþjóðlegt samstarf sem fer að hluta til fram á ensku. Gott vald á ensku er því einnig nauðsynlegt skilyrði fyrir þátttöku. Vinsamlegast athugið að aðeins 10 pláss eru í boði og að þátttakendur verða valdir í samræmi við gæði umsókna þeirra. Hvað felst í verkefninu? Netfyrirlestrar (15. september – 1. október 2025) með sérfræðingum frá Háskólanum í Varsjá um pólska sögu, menningu og áhrif upplýsingarstefnunnar í Póllandi. Tveggja vikna námsdvöl í Varsjá (5. - 17. október 2025): hraðnámskeið í pólsku máli með áherslu á samskiptafærni, þátttaka í vinnustofum og fjölbreyttum verkefnum, bæði til að þjálfa talmál og sem undirbúningur fyrir síðari hluta verkefnisins fjölbreytt menningardagskrá: skoðunarferð um Varsjá, leiðsagnir, heimsóknir á söfn og menningarstofnanir, þátttaka í menningarviðburðum og vettvangsferð utan höfuðborgarinnar á stað sem tengist upplýsingarstefnunni í Póllandi. Málþing í Reykjavík (22. nóvember 2025) – fyrirlestrar fluttir af Agnieszku Lajus og Sveini Yngva Egilssyni, sérfræðingum í upplýsingarstefnunni í Póllandi og á Ísandi, kynning á niðurstöðum verkefnisins og sýning á verkefnum nemenda. Af hverju að taka þátt? ReyVarstígur veitir þátttakendum tækifæri til að: taka þátt í spennandi verkefni sem stutt er af pólskum menntayfirvöldum, öðlast nýja reynslu, hitta aðra nemendur og sérfræðinga í pólsku máli og menningu, auka skilning sinn á sögu og menningu upplýsingaraldarinnar með leiðsögn frá helstu sérfræðingum á þessu sviði, bæta færni sína í pólsku máli, uppgötva Varsjá og kynnast menningu hennar og sögu. Hvernig sæki ég um? Til að sækja um þátttöku í verkefninu skal senda inn myndbandsupptöku á ensku ekki lengri en 5 mínútur (mp4) þar sem umsækjandi: kynnir sig og lýsir áhuga sínum á verkefninu, svarar eftirfarandi spurningum: Af hverju viltu taka þátt í verkefninu? Hvað vonastu til að læra og upplifa? Mun þátttaka í verkefninu bæta námsferil þinn, rannsóknir eða starf? Ef svo er, á hvaða hátt? Upptökuna ásamt ferilskrá* umsækjanda á ensku skal senda á netfangið: mariola@hi.is. Opnað fyrir umsóknir: 17. Mars 2025. Umsóknarfrestur: 16. maí 2025. Tilkynnt um val á þátttakendum úr hópi umsækjenda: 30. maí 2025. * Vinsamlegast athugið að vegna reglugerðar Evrópusambandsins um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og vegna persónuverndarlaga sem gilda í ríkjum Evrópusambandsins, verður ferilskráin að innihalda eftirfarandi yfirlýsingu á ensku: „I agree to the processing of personal data provided in this document and my personal image presented in the video by the Polish National Agency for Academic Exchange, the University of Warsaw, and the University of Iceland for the purpose of carrying out the recruitment process for the ReyVarstígur – from Reykjavik to Warsaw in the Footsteps of the Polish Enlightenment project.“ Hvers er ætlast til af þátttakendum? Þátttakendur eiga að taka virkan þátt í öllum þáttum verkefnisins. Í því felst: mæting á fyrirlestra sem fara fram á netinu (15. september – 1. október 2025), mæting á pólskunámskeið og vinnustofur í Varsjá (5.-17. október 2025), þátttaka í menningarviðburðum og menningardagskrá sem fer fram á meðan námsdvölinni stendur (5.-17. október 2025), þátttaka á málþinginu í Reykjavík (22. nóvember 2025) sem felst í því að flytja stutta kynningu á niðurstöðum verkefnisins. Nemendur sem uppfylla þessi skilyrði fá verkefnið metið til 5 ECTS eininga. Hvað er innifalið í verkefninu? Verkefnið greiðir eftirfarandi kostnað: flug báðar leiðir milli Reykjavíkur og Varsjár, gisting í Varsjá, aðgangsmiðar að söfnum, menningarstofnunum og viðburðum sem eru hluti af verkefninu, pólskunámskeið í Varsjá, vinnustofur og námsgögn, aðgangur að rafrænum fyrirlestrum. Þátttakendur þurfa sjálfir að sjá um fæðiskostnað meðan á dvölinni í Varsjá stendur, annan persónulegan kostnað. Vinsamlegast athugið að þátttakendur verkefnisins verða einnig að sjá sjálfir um sjúkratryggingar, eins og til dæmis að útvega og hafa með sér Evrópska sjúkratryggingakortið (E111). Nám í pólskum fræðum við HÍ Nemendum er bent á að Tungumálamiðstöð HÍ býður upp á nám í pólskum fræðum. Nánari upplýsingar um það má finna hér: Pólsk fræði grunndiplóma. Hafðu samband Allar nánari upplýsingar veitir: Mariola Fiema Netfang: Mariola@hi.is facebooklinkedintwitter